Frægasta óperetta valsakóngsins

Óperettan „Leðurblakan“ (Die Fledermaus) eftir Johann Strauss var frumsýnd í Theater an der Wien 5. apríl 1874. Textann sömdu Carl Haffner og Richard Genée og byggðu hann á leikriti eftir Henri Meilhac og Ludovic Halévy, en þeir höfðu aftur byggt leikrit sitt á farsa eftir Julius Roderick Benedix. Veisla á undan fangelsisvist Óperettan fjallar um Gabriel von Eisenstein sem hefur verið dæmdur í 8 daga fangelsi fyrir að gefa lögreglumanni kjaftshögg. Þegar hann ætlar að fara til þess að taka út dóminn hittir hann gamlan vin sinn, dr. Falke. Falke hvetur hann til þess að fresta því til morguns að mæta í fangelsið og koma heldur með sér um kvöldið í mikla veislu hjá hinum ríka Orlofsky fursta. Þar verði nóg um vín og fagrar konur, og Eisenstein geti slett úr klaufunum og notið lífsins svo um munar áður en fangavistin hefst. Eisenstein líst að sjálfsögðu vel á þetta og fer í veisluna með Falke. Hefnd leðurblökunnar Ekki vantar fjörið í veislunni hjá Orlofsky fursta, en þar gerist hins vegar ýmislegt sem Eisenstein átti ekki von á. Falke hefur nefnilega ákveðið að hefna sín fyrir grikk sem Eisenstein gerði honum einu sinni þegar þeir fóru saman á grímuball. Falke var þá í leðurblökubúningi og Eisenstein skildi hann eftir kófdrukkinn sofandi undir tré, en um morguninn varð Falke að ganga gegnum bæinn í leðurblökubúningnum öllum til athlægis. Síðan hefur hann verið kallaður dr. Leðurblaka. Eitt af því sem kemur Eisenstein á óvart í veislunni er það að þjónustustúlka þeirra hjóna, Adele, er mætt þangað í kjól af húsmóður sinni og þykist vera leikkona að nafni Olga. Eisenstein getur hins vegar ekki komið upp um hana því sjálfur er hann undir fölsku nafni og þykist vera franskur markgreifi. Í veisluna kemur grímuklædd kona og þó að Eisenstein sjái ekki andlit hennar sér hann að hún er föngulega vaxin. Hann fer að daðra við hana, enda grunar hann ekki hver undir grímunni leynist, en það er engin önnur en eiginkona hans sjálfs, Rósalinda, sem Falke hefur boðið í veisluna. Mesta áfallið fær Eisenstein þó um morguninn þegar hann gefur sig fram í fangelsinu og fær að vita að herra Eisenstein sé þegar kominn þangað, hafi verið handtekinn á heimili sínu daginn áður. En það er Alfred, elskhugi Rósalindu, sem hefur verið handtekinn í misgripum fyrir Eisenstein. Þetta gerir Eisenstein ævareiðan, en hann tekur þó gleði sína aftur í lokin þegar Falke segir honum að þetta hafi allt saman verið gabb og hrekkir úr sér, líka stefnumót Rósalindu og Alfreds. Flytjendur óperettunnar Gabriel von Eisenstein: Jonas Kaufmann. Rósalinda, kona hans: Diana Damrau. Adele, þjónustustúlka: Ilia Staple. Falke, vinur Eisensteins: Adrian Eröd. Orlofsky fursti: Daria Sushkova. Frank fangelsisstjóri: Jochen Schmeckenbecher. Alfred, söngvari: Jörg Schneider. Kór og hljómsveit Ríkisóperunnar í Vín; Markus Poschner stjórnar. Hljóðritunin er gerð á sýningu Ríkisóperunnar í Vín á gamlársdag 2025. Óperettan „Leðurblakan“ er á dagskrá rásar 1 á nýársdag 2026 kl. 18.10. Hlustendur eru beðnir að athuga að hún byrjar fyrr en venja er um Óperukvöld útvarpsins.