Ekki eðlilegt að einn ráðherra sé með þrjú ráðuneyti til lengri tíma

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir skiljanlegt að spurningar vakni við að einn og sami ráðherrann fari með málefni þriggja ráðuneyta, eins og í tilfelli Ingu Sæland sem er með öll ráðuneyti Flokks fólksins á sinni könnu - en það sé nú aðeins í skamman tíma. Inga, formaður flokksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, fer með málefni allra þriggja ráðuneyta flokksins í fjarveru Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra og Guðmundar Inga Kristinssonar mennta- og barnamálaráðherra. Fyrir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag var Kristrún spurð hvort þessi tilhögun væri eðlileg. Hún segir eðlilegt að innviðaráðherra sé frá í nokkrar vikur vegna fæðingar barns síns. Hann komi aftur um mánaðarmót janúar/febrúar. „En ég veit ekki nákvæmlega stöðuna á mennta- og barnamálaráðherra. Hann er tiltölulega nýútskrifaður af sjúkrahúsi og svo þurfum við bara að taka stöðuna á næstu dögum.“ Hvað er ásættanlegur tími í svona fjarveru? „Ég er ekki með neina uppskrift að því. Auðvitað gerast hlutir í lífinu, líka hjá ráðherrum. Við þurfum að hafa sveigjanleika til að bregðast við því. En ég skil að fólk sé með þessar spurningar, það þarf að vera ákveðin festa í ríkisstjórninni. Þetta er bara eitthvað sem við munum komast betur að núna á allra næstu dögum.“ Forsætisráðherra segir félags- og húsnæðismálaráðherra einungis fara með málefni þriggja ráðherra í skamma stund. Annað væri óeðlilegt. Innviðaráðherra snúi til baka í næsta mánuði en óljóst sé hversu lengi mennta- og barnamálaráðherra verði frá.