Íbúar í nágrenni við Fossvogskirkjugarð kvörtuðu sáran yfir líkbrennslu sem er þar starfrækt. Helga Sigurðardóttir, íbúi í nágrenninu, sagðist ekki geta opnað svefnherbergisgluggann á nóttunni vegna mengunar sem berist inn. „Mér finnst þetta hafa versnað, ég er búin að búa hérna í sex ár og við erum alltaf að finna fyrir meiri og meiri mengun af ofnunum,“ sagði Helga. „Við erum að fá til okkar reykinn inn á heimilið, inn í svefnherbergið til okkar og lyktina og óþægindin sem fylgja því. Heimilið fyllist ef það er opinn gluggi. Við erum að finna ertingu í augum og hálsi. Þannig þetta er frekar óþægilegt.“