Kristrún segist hafa rætt við Pétur

„Við höfum rætt saman, ég og Pétur, eins og fleiri aðilar sem eru að huga að framboði fyrir flokkinn,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra spurð hvort hún hafi átt fund með Pétri Marteinssyni. „Ég hef heyrt af áhuga hans, mér finnst það mjög jákvætt.“ Pétur hefur verið orðaður við oddvitasæti Samfylkingarinnar en liggur enn undir feldi varðandi framboð í vor. Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri hefur ein lýst því yfir að hún vilji leiða flokkinn í borginni, en heimildir fréttastofu herma að leit hafi staðið yfir, bæði leynt og ljóst, að frambjóðanda sem gæti skorað hana á hólm. Kristrún segir það ekki sitt að ákveða hvort Pétur fari fram fyrir Samfylkinguna í vor heldur grasrótar Samfylkingarinnar. Tæpur mánuður er í prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík sem verður 24. janúar.