Atvinnutekjur á íbúa voru áfram hæstar á Austurlandi og höfuðborgarsvæðinu árið 2024. Þetta kemur fram í skýrslu um tekjur einstaklinga eftir svæðum á árunum 2008-2024. Árið 2024 voru atvinnutekjur á hvern íbúa um 6 milljónir króna í Garðabæ, Fjarðabyggð og á Seltjarnarnesi en um 4 milljónir króna í Húnavatnssýslum og Borgarfirði/Dölum. Þó að atvinnutekjur í Fjarðabyggð hafi áfram verið með þeim hæstu á landinu drógust heildaratvinnutekjur þar saman um 6% árið 2024. Álíka samdráttur varð í atvinnutekjum í Vestmannaeyjum. Sjávarútvegur er veigamikil atvinnugrein á svæðunum en atvinnutekjur bæði í fiskveiðum og fiskvinnslu voru töluvert minni en árið 2023. Á Austurlandi og Suðurnesjum voru atvinnutekjur 74% heildartekna einstaklinga en lægsta hlutdeild atvinnutekna var 67% á Suðurlandi og Norðurlandi vestra. Heildartekjur einstaklinga námu 2.872 milljörðum króna árið 2024 en atvinnutekjur voru 1.992 milljarðar. Hvað eru heildartekjur? Með heildartekjum er átt við samanlagðar atvinnutekjur, lífeyrisgreiðslur, fjármagnstekjur, bætur frá Tryggingastofnun og Sjúkratryggingum, atvinnuleysisgreiðslur, fæðingarorlofsgreiðslur, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og aðrar staðgreiðsluskyldar tekjur. Sjávarútvegur vegur þyngst á Vestfjörðum Opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónusta er stærsta atvinnugreinin heilt yfir með um 611 milljarða eða tæp 31%. Hlutdeild atvinnugreina í atvinnutekjum er töluvert ólík milli landshluta og enn fjölbreyttari ef horft er á tekjusvæði eða sveitarfélög. Til að mynda var framleiðsla án fiskvinnslu mikilvægust fyrir tvo landshluta, Austurland þar sem hlutdeild greinarinnar í heildaratvinnutekjum árið 2024 var 19% og Vesturland þar sem hlutdeildin var 18%. Flutningar og geymsla hefur langhæstu hlutdeild á Suðurnesjum eða 19% og rekstur gisti- og veitingastaða hefur hæstu hlutdeild á Suðurlandi 10%. Sjávarútvegur, þ.e. veiðar og vinnsla, var hlutfallslega mikilvægastur fyrir atvinnutekjur á Vestfjörðum árið 2024 þar sem hlutdeild greinarinnar var 22%, á Austurlandi var hún 18% og á Vesturlandi 12%.