Guðmundur Fylkisson er manneskja ársins 2025

Guðmundur Fylkisson er manneskja ársins 2025 að mati hlustenda Rásar 2. Guðmundur er lögreglumaður sem sérhæfir sig í að leita að týndum börnum í fjölda ára og hefur vakið athygli á málefnum barna með fjölþættan vanda. Hann hefur verið lögreglumaður í um fjóra áratugi. Metfjöldi beiðna um að leita að börnum hefur borist lögreglunni á þessu ári. „Auðvitað líður manni vel að fá klapp á bakið. En ég hef sagt það áður; ég hefði viljað fá klappið við aðrar aðstæður,“ sagði Guðmundur eftir að tilkynnt var um úrslit atkvæðagreiðslunnar um manneskju ársins 2025 í Síðdegisútvarpinu í dag. Hann sagði margt hafa áunnist á þessu ári í vitundarvakningu. Nú þurfi að bregðast við. „Þó að samfélagið sé tilbúið virðist kerfið vera í smá vandræðum með að framkvæma.“ Guðmundur var tilnefndur fyrir að vera óstöðvandi í leit að týndum börnum, láta sig varða málefni barna með fíknivanda og minna foreldra á að gefa sér tíma í uppeldi barna. Þau sem voru tilnefnd sem manneskja ársins 2025 voru, ásamt Guðmundi, Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, Hafþór Freyr Jóhannsson, 12 ára Norðfirðingur, Kristín S. Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, Laufey Lín Jónsdóttir, tónlistarkona, Margrét Kristín Blöndal, tónlistarkona og aðgerðarsinni, Smári Hannesson, listamaður og rithöfundur, Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra, Snorri Másson alþingismaður og foreldrar og aðstandendur fatlaðs fólks.