Dagurinn í dag markar tímamót í sögu póstsins í Danmörku. PostNord hættir þá að dreifa bréfum, sem fyrirtækið hefur gert frá árinu 1624, eða í rúm 400 ár. Ákvörðunin var upphaflega tekin í mars og var ástæðan sú að Danir hefðu nýtt sér stafræna tækni í auknum mæli. Sendum bréfum hafði þá fækkað um 90% frá aldamótum - voru 1,5 milljarðar árið 2000 en eru nú um 100 milljónir á ári. Árið 2024 var fækkunin 30% á einu ári. Þetta gerir það að verkum að störfum hjá fyrirtækinu fækkar um 1.500, eða tæpan þriðjung. Búið er að semja við einkafyrirtækið DAO um að sjá um dreifingu bréfa á landsvísu. Í dag var síðasti dagurinn sem danski pósturinn, PostNord, sendi bréf. Fyrirtækið einbeitir sér nú að stærri pökkum en lætur einkafyrirtæki um að senda þau fáu bréf sem enn eru send. Það þarf kannski ekki að koma á óvart að viðbrögðin við þessari breytingu fara eftir aldri. Eldri kona í Kaupmannahöfn segir við danska ríkisútvarpið: „Það eiga ekki allir tölvu. Ég á ekkert slíkt og vil það ekki heldur.“ Þegar yngri kona er hins vegar spurð hvenær hún sendi bréf síðast er svarið. „Það eru meira en 10 ár síðan.“ Yngri kynslóðin notar sem sagt símann og netið í það sem bréfin voru notuð áður. Í dag var síðasti dagurinn sem danski pósturinn, PostNord, sendi bréf. Fyrirtækið einbeitir sér nú að stærri pökkum en lætur einkafyrirtæki um að senda þau fáu bréf sem enn eru send. Í dag dreifði PostNord bréfum í síðasta sinn. Áður fyrr voru þeir sem fóru með póstinn oftast á tveimur jafnfljótum, í það minnsta í borgum og bæjum, en nú hafa hjólin tekið við. Þeir sem hafa unnið við að bera út póstinn tala gjarnan um að þeir eigi eftir að sakna fólksins sem þeir hittu á þessum hjólaferðum sínum - það þýðir víst lítið að bera stærri pakka á slíku farartæki. Í dag var síðasti dagurinn sem danski pósturinn, PostNord, sendi bréf. Fyrirtækið einbeitir sér nú að stærri pökkum en lætur einkafyrirtæki um að senda þau fáu bréf sem enn eru send. „Þetta er sérstök tilfinning. Bæði vegna þess að ég er búin að vera hérna lengi, og líka út af sögunni. Við höfum haldið úti póstþjónustu síðan Kristján IV. var konungur,“ segir Heidi Baccalini bréfberi hjá PostNord og það er ekki laust við að tilfinningarnar geri vart við sig. Í sama streng tekur Thomas Holm sem einnig hefur verið bréfberi lengi. „Þetta er sorglegur dagur, en líka sögulegur. Ég hef aðeins verið hérna í 17 ár en hef lært svo mikið á þessum tíma, og nú lokar fyrirtæki sem hefur þjónað öllu samfélaginu.“ Danir geta áfram sent bréf þó að PostNord sé hætt því. DAO sér um þjónustuna samkvæmt samningi við ríkið. Það þarf þá að fara með bréfið annaðhvort á pósthús eða í póstkassa merktum því fyrirtæki. PostNord einbeitir sér hins vegar að því að koma pökkum áleiðis og meirihlutinn af því eru hlutir sem fólk hefur keypt á netinu.