Átta starfsmönnum sagt upp hjá Árvakri

Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, hefur sagt upp að minnsta kosti átta starfsmönnum. Þetta herma heimildir fréttastofu. Samkvæmt þeim ná uppsagnirnar til nokkurra mismunandi deilda, þar á meðal K100. Meðal þeirra sem sagt var upp sé útvarpsmaðurinn Bolli Már Bjarnason. Til stendur að tilkynna breytingar á ritstjórn Morgunblaðsins í næstu viku. Ekki liggur fyrir hverjar þær verða. Starfsmenn Árvakurs voru boðaðir á fund í dag þar sem greint var frá erfiðleikum í rekstri fjölmiðilsins. Í gær var greint frá því að Kolbrúnu Bergþórsdóttur og Víði Sigurðssyni hefði verið sagt upp störfum á Morgunblaðinu. Þremur blaðamönnum var sagt upp á Morgunblaðinu í síðasta mánuði; einum á fréttadeild, einum á íþróttadeild og einum á Smartlandi.