Samdráttur í fyrsta sinn í mörg ár

Þau sem selja erlendum ferðamönnum gistingu verða vör við samdrátt og minni spennu í bókunum. Mönnum líst ekki alveg á blikuna, segir einn þeirra. Fjöldi hótelherbergja hefur tvöfaldast á tíu árum, alls staðar á landinu, nema á Austurlandi og á höfuðborgarsvæðinu. Á Suðurlandi finnur fólk fyrir samdrætti: en telja hann ekki vera mikinn enn sem komið er. )) „Við finnum nú alveg fyrir því að það er aðeins minna núna,“ segir Haraldur Þór Jónsson á Hraunvöllum á Skeiðum, „það eru níu ár síðan við opnuðum hér og það hefur alltaf verið mjög þétt allt árið þ.a. þetta kannski svona fyrsti veturinn sem að við erum inn í sem að maður finnur fyrir svolitlum slaka.“ Björgvin Jóhannesson hótelstjóri Hótel Selfoss og Hótel South Coast sem líka er á Selfossi, segist minni laustraffík en að bókunarstaðan sé nokkuð svipuð og á sama tíma í fyrra: „Það hefur verið aðeins minni spenna á markaðnum en hefur verið. Við getum alveg tekið undir það.“ Íslendingar sækja líka nokkuð í gistingu á Hótel Selfoss því þar eru haldnar ráðstefnur, árshátíðir og fleira. Samdráttur er í vetrarbókunum ferðamanna í fyrsta sinn í mörg ár, segir gistihúsrekandi á Suðurlandi. Hann og hótelstjóri á Suðurlandi segja skipta öllu að verja meira fé í landkynningu. Nýjustu tölur um hótelgistingu frá í október sýna 2,3% fækkun, eða þrettán þúsund færri gistinætur. 141 þúsund færri erlendir farþegar flugu frá Keflavíkurflugvelli í nóvember miðað við í fyrra um munar 13%. Haraldur Þór og Helga Jóhanna Úlfarsdóttir reka gistingu í átta litlum húsum á Hraunvöllum á Skeiðum, 20 kílómetrum austur af Selfossi: „Maður heyrir svona skjálfta í mönnum. Mörgum líst kannski ekki alveg á blikuna. Það er áþreifanlegt hvað ferðaheildsölum finnst orðið erfiðara að selja Ísland og þá kannski sérstaklega vegna mikillar markaðssetningar annarra landa. En þá heyrist kannski lítið frá Íslandi,“ segir Haraldur Þór. Aðrir neikvæðir þættir eru sterk króna og kílómetragjald sem bílaleigur telja að hafi verið sett á með of skömmum fyrirvara. Björgvin segir að Noregur hefur til dæmis unnið í samkeppninni við Ísland um Norðurljósaferðir: „Það hefur ekki verið bætt í fjármagn í markaðssetningu erlendis til þess að kynna landið af neinu viti síðustu árin. Við erum að horfa upp á hinar þjóðirnar með margfaldar upphæðir sem við erum að setja [í þetta].“ Haraldur Þór segir ferðamönnum ekkert hafa fjölgað á Íslandi síðustu sjö ár og því skipti öllu að missa ekki dampinn og verja fé í markaðssetningu: „Ég held að ef við værum að fara að horfa fram á samdrátt í ferðaþjónustu þá væri það fljótt að hafa mikil áhrif á ríkiskassann og að þá yrðu menn fljótir að bregðast við og spýta í,.“