Er árið 2025 minnistætt fyrir stjórnmálastéttina? Í það minnsta gerist ekki oft að borgarstjórn springi, ráðherra segi af sér og kjarnorkuákvæði sé beitt á Alþingi á einu og sama árinu. Að ógleymdu brotthvarfi eins aðsópsmesta en líka umdeildasta stjórnmálaforingja landsins. Allir leiðtogar síðustu ríkisstjórnar hættir eða að hætta Bjarni Benediktsson tilkynnti strax í byrjun árs að hann myndi ekki taka sæti á Alþingi eftir kosningar og að eftir sextán ár sem formaður Sjálfstæðisflokksins væri komið að leiðarlokum hjá honum. Við tók formannsslagur sem lauk með naumum sigri Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Ákvörðun Bjarna að hverfa á braut var ekki einsdæmi. Sigurður Ingi Jóhannsson lætur af formennsku Framsóknarflokksins á flokksþingi í febrúar og Svandís Svavarsdóttir hættir líka sem formaður VG á nýju ári. Þegar öllum formannsskiptum er lokið eru allir leiðtogar síðustu ríkisstjórnar hættir. Í öllu umrótinu lifir Miðflokkurinn sem blóm í eggi; flokkurinn mælist ítrekað stærstur stjórnarandstöðuflokka - meðal annars í spánnýjum þjóðarpúlsi Gallups í gær. Þar kom líka í ljós að stuðningurinn við ríkisstjórnina dalar lítillega og fylgi bæði Viðreisnar og Flokks fólksins dregst saman. Nýtt ár - nýir leiðtogar í borginni? Árið var líka tíðindamikið í ráðhúsinu. Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokksins, ákvað strax í febrúar að slíta meirihlutasamstarfinu og virtist í fyrstu vera með öll tromp á hendi; átti bara að vera tímaspursmál hvenær nýr meirihluti með Sjálfstæðisflokki og Flokki fólksins tæki við. En einhver reif í handbremsuna og Heiða Björg Hilmisdóttir varð borgarstjóri undir hatti Samfylkingar, Flokks fólksins, VG, Pírata og Sósíalista. Meirihlutinn nýtur engra sérstakra vinsælda, viðruð hefur verið sú hugmynd að Píratar og VG bjóði fram undir merkjum Vors til vinstri, nýs framboðs Sönnu Magdalenu Mörtudóttir sem hún stofnaði eftir ýfingar innan Sósíalistaflokksins. Nýleg skoðanakönnun Maskínu sýndi að aðeins tvö prósent vilja Heiðu Björgu áfram sem borgarstjóra og á næstu dögum kemur í ljós hvort borgarstjórinn fái áskoranda um efsta sæti á lista Samfylkingarinnar; nafn Péturs Marteinssonar knattspyrnuhetju og athafnamanns, er nefnt í því samhengi. Um svipað leyti skýrist líka hvort Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, gerir atlögu að oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins sem Hildur Björnsdóttir vill verma áfram. Ráðherra segir af sér og umdeild samgönguáætlun „Þetta persónulega mál mitt sem er orðið 35 ára gamalt á ekki að skyggja á þau góðu störf sem ríkisstjórnin er að gera. Þau eru mikilvægari en málefnin sem ég er að vinna að inni í menntamálaráðuneyti, sem ég sé mjög eftir að geta ekki klárað,“ sagði Ásthildur Lóa Þórsdóttir þegar hún sagði af sér sem mennta-og barnamálaráðherra eftir örfáa mánuði í embætti. Guðmundur Ingi Kristinsson tók við embættinu en hefur ekki beint setið á friðarstóli; hann boðaði uppstokkun framhaldsskóla en ákvörðun hans um að framlengja ekki skipunartíma skólameistara Borgarholtsskóla varð að heitri pólitískri kartöflu, ekki síst í ljósi samskipta skólameistarans við formann Flokks fólksins um skópar. Guðmundur fór í veikindaleyfi undir lok árs eftir að hafa gengist undir hjartaaðgerð. Á meðan gegnir Inga Sæland ráðherraembættinu. Hún er reyndar líka innviðaráðherra í fjarveru Eyjólfs Ármannssonar. Eyjólfur er í fæðingarorlofi en hyggst snúa aftur um miðjan næsta mánuð til að mæla fyrir umdeildri samgönguáætlun sem Austfirðingar tóku ekki þegjandi og hljóðalaust og líktu nánast við drottinsvikum Upp úr sauð á Alþingi og efnahagsskellir í hrönnum Upp úr sauð á Alþingi þegar Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, stöðvaði umræðu um veiðigjaldsfrumvarpið sem stjórnarandstaðan taldi ekki lokið eftir 160 klukkustunda ræðuhöld. Sumir stjórnarliðar sökuðu minnihlutann um valdarán, minnihlutanum fannst þetta vera áfellisdómur yfir forsætisráðherra. Þegar þingheimur kom saman í haust reyndi forseti þingsins að bera klæði á vopnin, Þórunn Sveinbjarnardóttir nefndi það við þingsetningu að hún þyrfti að endurvinna traust margra í þingsalnum - að því ætlaði hún að vinna af heilindum. Henni varð á í messunni þegar hún kallaði stjórnarandstöðuna andskotans helvítis pakk á leið úr þingsal. Glíman við verðbólgu og vexti gekk ekki jafn hratt og vonast hafði verið eftir; ofan á það bættust efnahagsáföll. Tekjur af uppsjávarfiski voru minni, flugfélagið Play féll, PCC á Bakka var lokað og alvarleg bilun kom upp í álveri Norðuráls á Grundartanga - snerra við Evrópusambandið um verndartolla setti sömuleiðis svip sinn á árið Af hverju er Miðflokkurinn á svona miklu flugi? Hefur það áhrif á stjórnarsamstarf þegar stuðningur við tvo stjórnarflokka dalar í skoðanakönnunum? Og hver hefur mestu að tapa í komandi sveitastjórnarkosningum?