Carlsen heimsmeistari í hraðskák í níunda sinn

Magnus Carlsen varð í dag heimsmeistari í hraðskák í níunda skipti en mótið var í Doha í Katar. Tefldar voru 19 umferðir og eftir það komust fjóru efstu skákmennirnir í undanúrslit. Indverjinn Arjun Erigaisi var efstur með 15 vinninga en hann náði ekki að fylgja góðu gengi eftir í útsláttarkeppninni og tapaði fyrir Nodirbek Abdusattorov frá Úsbekistan. Í hinni undanúrslitaviðureigninni hafði áttfaldur heimsmeistari í hraðskák, Norðmaðurinn Magnus Carlsen, betur gegn hinum ítalsk-bandaríska Fabiano Caruana, 3-1. Carlsen rann út á tíma í fyrstu úrslitaskákinni en vann þá næstu eftir slæm mistök Abdusattorov. Þeir gerðu jafntefli í þriðju skákinni og Carlsen vann svo þá fjórðu og síðustu og fagnaði því sínum níunda heimsmeistaratitli í hraðskák en hann varð einnig heimsmeistari í atskák í fyrradag. Heimsmeistaramótinu í hraðskák lauk í dag og stóð Magnus Carlsen uppi sem sigurvegari í níunda skiptið eftir sigur á Nodirbek Abdusattorov í úrslitum. Vignir Vatnar Stefánsson tefldi á mótinu og var sáttur með sína frammistöðu. Ætlar að gera enn betur næst Yngsti stórmeistari Íslands, Vignir Vatnar Stefánsson, var eini Íslendingurinn á mótinu og endaði hann með tíu vinninga sem skilaði honum 94. sæti af 252 skákmönnum. „Prýðilegur árangur,“ sagði Vignir að móti loknu. „Ég leyfi mér samt að segja að ég hefði getað endað með allavega 11 ef ekki 12 vinninga ef allt hefði gengið upp en svona er þessi bransi.“ „Þessi reynsla að fá að vera hérna og tefla í kringum bestu skákmenn heims og tefla við marga bestu skákmenn heims hefur gefið mér gríðarlega mikið og ég get ekki beðið eftir að mæta hérna á næsta ári með þessa reynslu að baki og standa mig enn þá betur.“