„Ég bið um stuðning míns fólks“

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri biður um stuðning samflokksmanna til þess að fá að leiða Samfylkinguna í borginni í komandi sveitarstjórnarkosningum. Hún segist hins vegar fagna öllum sem gefa kost á sér til að vinna að jafnaðarstefnu í Reykjavík. Samfylkingin heldur prófkjör í janúar og hafa nokkrir verið orðaðir við oddvitasætið. Heiða hefur þegar sagt að hún vilji gefa kost á sér í fyrsta sætið. Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði í dag að hún hefði rætt við Pétur Marteinsson, sem liggur undir feldi varðandi framboð. „Ég fagna öllum sem gefa kost á sér og koma með okkur í slaginn því þetta er gríðarlega mikilvægt. Það er mikilvægt að við höldum áfram á góðri leið í Reykjavíkurborg,“ segir Heiða Björg. „Ég held að Kristrún tali við alla sem eru að hugsa sér til hreyfings og vilja koma til liðs við okkur. Ég er sjálf búin að tala við held ég yfir tíu manns sem langar að koma og starfa með okkur.“ Heiða segist einnig hafa rætt við Kristrúnu. Samstarf þeirra sé gott og þær hafi rætt mikilvægi þess að Samfylkingin sé sterk á öllum vígstöðvum. „Ég hef ekki verið oddviti lengi og mitt fyrsta verk er að í rauninni ná saman fimm flokka meirihluta. Ég held að ég hafi sýnt það í mínum verkum að ég er fær leiðtogi. Ég bið auðvitað um stuðning míns fólks til að fá að halda áfram að leiða flokkinn til sigurs í kosningunum.“ Hún segist ekki sjálf hafa heyrt í neinum sem hugi á fyrsta sætið í borginni. „Fólki er frjálst að bjóða sig fram. Ég mun gera það og stefni á það og finn ekki fyrir öðru en miklum stuðningi í fyrsta sætið. En ég fagna því að fleiri hafi áhuga og ég býð alla velkomna. Ég held að þeir kandídatar sem hafa verið í umræðunni séu allir hæft og flott fólk sem við viljum gjarnan fá að starfa fyrir borgarbúa.“