Gæludýrin mega ekki gleymast um áramótin. Dýralæknir segir nauðsynlegt að gæludýraeigendur geri viðeigandi ráðstafanir. Flugeldar og hávaðinn sem þeim fylgir geta valdið vanlíðan og hræðslu sem getur fylgt þeim út ævina. Áramótin eru handan við hornið og margir hlakka eflaust mikið til að kveðja árið með því að skjóta upp litríkum flugeldum með tilheyrandi hvellum og ljósadýrð á himni. Þó eru ekki allir sem þola slíkt. „Þetta er mjög erfiður tími fyrir öll dýr og gæludýrin sem eru mikið hjá okkur verða fyrir töluverðum áhrifum. En við erum líka komin með hestafólk í mikið návígi og það getur verið bæði mjög erfiður tími og hættulegur,“ segir Þóra Jóhanna Jónasdóttir, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun. En hvernig getum við hugað að dýrunum okkar og undirbúið þau sem best?