Bíllinn er aðalvinnustaður manneskju ársins

„Það er kannski vont að fá tilnefningu fyrir eitthvað sem aðrir eru að þjást fyrir og kerfið er að bregðast. En ég er náttúrulega að fá tilnefningu fyrir að vinna vinnuna mína, sem er að aðstoða barnaverndaryfirvöld og foreldra við að finna börn sem að skila sér ekki heim.“ Þetta segir Guðmundur Fylkisson lögreglumaður sem hefur sérhæft sig í að leita að týndum börnum í meira en áratug en hann var valinn manneskja ársins 2025 af hlustendum Rásar 2. Guðmundur hefur leitað að 390 börnum í ár, meðaltal síðustu tíu ára eru 210 börn á ári. María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður kíkti með Guðmundi á rúntinn og ræddi við hann um starfið. „Bíllinn er minn aðalvinnustaður og vinnan mín fer mestmegnis fram í honum. Ég held að ég sé að keyra eitthvað í kringum 30 til 35 þúsund kílómetra á ári.“