Fréttir ársins 2025 með Atla Fannari

Atli Fannar Bjarkason sneri aftur í Vikuna með Gísla Marteini fyrir sérstakan ársuppgjörsþátt í kvöld, Árið með Gísla Marteini, til að fara yfir fréttir ársins 2025. „Kæru landsmenn. 2025 var enn eitt metárið í upplýsingaóreiðu og gervigreindin er svo sannarlega ekki að hjálpa,“ sagði Atli. „Umræðan verður því oftar en ekki álíka næringarrík og hamborgari sem er fluttur frosinn á milli heimsálfa og afgreiddur um lúgu áður en hann endar tilveruna sína í ræsinu, eins og kommentakerfið á Facebook. En þetta þarf ekki að vera svona.“ Í þættinum stiklaði Atli Fannar á stóru enda hefur margt skeð á síðustu tólf mánuðum. Hann ræddi meðal annars slaufunarmenninguna, Epstein-skjölin, vendingar í Miðflokknum, pöddulíf á Íslandi, fall Play og eilífðarleitina að svari við því hvað sé eiginlega þetta vók?