Utanríkisráðherrar tíu ríkja lýsa yfir þungum áhyggjum vegna stöðu mannúðaraðstoðar á Gaza. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, er meðal þeirra. „Við, utanríkisráðherrar Kanada, Danmerkur, Finnlands, Frakklands, Íslands, Japans, Noregs, Sviss og Bretlands lýsum yfir þungum áhyggjum vegna versnandi stöðu mannúðarstöðunnar á Gaza sem heldur áfram að vera hræðileg,“ segir í yfirlýsingunni. Mbl greindi fyrst frá. Þar segir að utanríkisráðuneyti Íslands hafi enn ekki greint frá yfirlýsingunni en að breska utanríkisráðuneytið hefði birt hana fyrr í dag. Skortur á sjúkratækjum yfirvofandi Í yfirlýsingu utanríkisráðherranna segir að vetur nálgist og almenningur á Gaza lifi við hræðilegar aðstæður, úrhelli og lækkandi hitastig. „1,3 milljónir manna þurfa enn á skjóli að halda hið snatrasta. Yfir helmingur af allri aðstöðu fyrir heilbrigðisþjónustu er aðeins starfshæf að takmörkuðu leyti og horft er fram á yfirvofandi skort á nauðsynlegum sjúkratækjum og birgðum. Algjört hrun hreinlætisinnviða þýðir að 740 þúsund manns eru berskjölduð fyrir eitruðum flóðum.“ Þá er vísað í skýrslu IPC (Integrated Food Secutity Phase Classification) frá 19. desember þar sem fram kemur að 1,6 milljónir íbúa á Gaza-ströndinni búi við mikið fæðuóöryggi. Hvetja ísraelsk stjórnvöld til að stíga fjögur skref Í yfirlýsingu utanríkisráðherranna segir að mannúðaraðstoð á Gaza séu enn settar of miklar takmarkanir þrátt fyrir að magn aðstoðar hafi aukist eftir að vopnahléið tók gildi. „Við fögnum þeim áföngum sem hafa náðst til að binda enda á blóðsúthellingarnar á Gaza, tryggja losun gíslanna og að upphafi nýs kafla í tveggja ára átökunum. Við biðjum einnig um að líkamsleifum síðustu gíslanna verði skilað í bráð og að Hamas afvopnist og afneiti ofbeldi líkt og kveðið er á um í New York-yfirlýsingunni og áætluninni til að binda enda á átökin á Gaza.“ Hins vegar verði ekki horft fram hjá þjáningum almennings á Gaza. Utanríkisráðherrarnir beina því til stjórnvalda í Ísrael að grípa til eftirfarandi skrefa: Í fyrsta lagi skal tryggja að alþjóðlegar mannúðarstofnanir (e. NGOs) geti starfað á sjálfbæran og fyrirsjáanlegan hátt. Í öðru lagi skuli tryggja að Sameinuðu þjóðirnar og samstarfsfélagar alþjóðasamtakanna geti haldið áfram sínu nauðsynlega starfi á Gaza, eins og að flytja hjálpargögn til svæðisins. Í þriðja lagi að óraunhæfum takmörkunum á innflutningi á vörum sem taldar eru hafa tvöfaldan tilgang sé aflétt. Þetta á til dæmis við sjúkratæki og búnað til að byggja skjól. Í fjórða lagi að opnað sé fyrir landamærastöðvar og aukið flæði mannúðaraðstoðar til Gaza. Í því skyni eru nefnd Rafah-landamærin. „Við hvetjum ríkisstjórn Ísraels til að aflétta þessum takmörkunum á aðgengi mannúðaraðstoðar, og að afhenda og virða áætlunina til að binda enda á átökin á Gaza. Þetta er nauðsynlegt fyrir árangursrík viðbrögð mannúðaraðstoðar, endurheimtar og endurbyggingar og langvarandi frið og stöðugleika,“ segir í yfirlýsingunni.