Sameinuðu arabísku furstadæmin segjast ætla að draga herafla sinn frá Jemen í kjölfar loftárásar Sáda á hafnarborgina Mukalla í suðurhluta landsins. Þótt Sameinuðu arabísku furstadæmin og Sádi-Arabía séu að nafninu til samherjar í stríðinu gegn Hútum, sem ráða yfir bróðurpart Jemen, hefur ekki alltaf allt leikið í lyndi hjá Arabaveldunum tveimur. Furstadæmin eru helsti bakhjarl Umbreytingaráðs suðursins (STC), hreyfingar aðskilnaðarsinna sem ráða yfir mestum hluta Suður-Jemens. Umbreytingaráðið hefur formlega heitið hinni alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórn Jemens, sem nýtur stuðnings Sáda, hollustu sinni en bandalag þeirra hefur á köflum verið brothætt. Í desember sótti her Umbreytingaráðsins fram og lagði undir sig mikið landsvæði, meðal annars Hadramout-hérað, sem er hluti af mikilvægri birgðaflutningaleið. Er her hreyfingarinnar þar með kominn sneinsnar landamærum Jemens að Sádi-Arabíu. Á þriðjudag brugðust Sádar við með því að gera loftárás á meintan farm af vopnum í Makalla. Í kjölfarið gáfu Sádar út yfirlýsingu þar sem þeir sögðu þjóðaröryggi sitt vera rauða línu sem ekki mætti stíga yfir og kröfðust þess að furstadæmin hættu öllum fjárhagslegum og hernaðarlegum stuðningi við deiluaðila í jemensku borgarastyrjöldinni. Rashad al-Alimi, formaður leiðtogaráðs ríkisstjórnar Jemens, skipaði furstadæmunum síðan að hafa sig á brott innan sólarhrings. Í sjónvarpsávarpi sagði Alimi það fullstaðfest að Sameinuðu arabísku furstadæmin hefðu þrýst á Umbreytingaráð suðursins að grafa undan valdstjórninni með stigmögnun hernaðarátaka. Sameinuðu arabísku furstadæmin hafna því formlega að þau styðji Umbreytingaráð suðursins yfirhöfuð. Ekkert fararsnið virðist vera á Umbreytingaráðinu frá landsvæðinu sem var hernumið. „Það er ósanngjarnt að landeigandi sé beðinn um að fara af sínu eigin landi,“ sagði talsmaður ráðsins, Anwar al-Tamimi, við fréttastofu AFP. „Staðan krefst þess að við séum um kyrrt og fylkjum liði.“