Pólsk stjórnvöld hafa gengið frá samningi við fyrirtæki í Suður-Kóreu um framleiðslu stýriflauga fyrir K239 Chunmoo-eldflaugakerfi í Póllandi. Pólland hefur keypt hundruð slíkra kerfa af Suður-Kóreu og áætlað er að pólski herinn fái stýriflaugarnar í sínar hendur frá 2030 til 2033. Samningurinn gerir ráð fyrir því að verksmiðja fyrir stýriflaugarnar verði byggð í borginni Gorzów Wielkopolski undir stjórn Hanwha WB Advanced System, samsteypu í sameign pólska fyrirtækisins WB Electronics og suðurkóreska fyrirtækisins Hanwha Aerospace. Pólland festi kaup á 288 Chunmoo-eldflaugakerfum árið 2022 eftir upphaf innrásar Rússa í Úkraínu. Pólverjar keyptu jafnframt hundruð suðurkóreskra skriðdreka, orrustuþota og sjálfvirkra sprengjuvarpa. Pólska varnarmálaráðuneytið sagði samkomulagið til þess falið að efla pólska varnariðnaðinn. „Fyrir okkur er það mikilvægt að velja bestu seljendurna en það sem skiptir jafnmiklu máli, og stundum jafnvel enn meira, er að framleiðslan fari fram í Póllandi,“ sagði Władysław Kosiniak-Kamysz varnarmálaráðherra.