Stöðva greiðslur til Minnesota vegna ásakana um fjársvik

Bandaríska heilbrigðis- og umönnunarráðuneytið hefur fryst allar greiðslur sem ætlaðar eru til umönnunar barna til Minnesota-ríkis vegna ásakana um stórfelld fjársvik í velferðarkerfi ríkisins. Jim O'Neill aðstoðarráðherra tilkynnti frystingu fjárveitinganna í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter) og vísaði til myndbands áhrifavaldsins Nick Shirley. Shirley birti á dögunum myndband á YouTube sem hefur farið á flug í netheimum þar sem hann færði rök fyrir því að mikill fjöldi dagheimila í Minnesota byði ekki í raun upp á neina þjónustu, heldur hefðu stjórnendur þeirra, sem margir væru sómalskir innflytjendur, stungið rekstrarfé frá hinu opinbera í eigin vasa. Sum dagheimilin hafa mótmælt fullyrðingum Shirley um að þau veiti ekki þá þjónustu sem þau segjast bjóða upp á. Eitt þeirra, ABC Learning Center, deildi upptökum úr eftirlitsmyndavélum með CBS News þar sem foreldrar sjást koma með börnin sín í leikskólann sama dag og Shirley heimsótti hann í myndbandinu. Embættismenn frá heimavarnarráðuneyti Bandaríkjanna gerðu rassíur á fjölda staða daginn áður en O'Neill tilkynnti frystingu fjárveitinganna. Kristi Noem heimavarnarráðherra sagði þær tengjast stórrannsókn á stórfelldum fjársvikum.