Víðtæk rafmagnsbilun í Tálknafirði

Rafmagnslaust er á Tálknafirði, en rafmagni sló út á öðrum tímanum í nótt. Samkvæmt upplýsingum frá Orkubúi Vestfjarða hefur mikill mannskapur verið kallaður út til að leita bilunarinnar, sem er sögð umfangsmikil. Nokkrum sinnum hefur orðið rafmagnslaust á svæðinu á undanförnum vikum. Um miðjan mánuðinn gagnrýndi fyrirtækjaeigandi á Tálknafirði orkuöryggi á sunnanverðum Vestfjörðum, eftir að hafa orðið fyrir milljónatjóni í landeldisrekstri. Orkubússtjóri sagði þá til skoðunar hvers vegna truflun hefði verið á varaafli í kjölfar rafmagnsleysis.