Ljóðið lifir þótt það öskri ekki hátt

Á fyrsta degi ársins 2026 standa þrjátíu íslensk skáld fyrir óslitinni ljóðadagskrá, Árljóðum, frá sólarupprás til sólarlags. Þetta verður níunda árið sem dagskráin fer fram, og í þetta sinn í Hljómskálanum. Þar lesa, kveða og þylja skáldin á meðan lesbjart er frá klukkan tíu að morgni 1. janúar. Tveir fulltrúar skáldanna og sýningarstjórar viðburðarins, Ragnar Helgi Ólafsson og Kristín Ómarsdóttir, voru gestir Mannlega þáttarins á Rás 1 þar sem þau sögðu betur frá. Hafa verið á meðal skipuleggjenda frá upphafi Hugmyndin varð til árið 2017, í jólabókafljóðinu svokallaða. „Þá voru nokkur ljóðskáld sem ætluðu að trana sér fram og búa til alls konar dagskrá. Við bjuggum til langa dagskrá í Hannesarholti en langaði að setja saman enn lengri og hafa alla með.“ Ári áður var Kristín stödd í New York á nýársdag þar sem hún tók þátt í ljóðadagskrá sem hafði verið haldin í sömu kirkju frá árinu 1975. „Þar er lesið á nóttunni og fram á 2. janúar.“ Þegar Kristín sagði hinum ljóðskáldunum frá upplifun sinni af dagskránni í New York stakk einhver upp á að halda hana í sjö klukkutíma, frá sólarupprás til sólarlags á nýársdag. „Við vorum hópur sem fórum af stað með þetta og fyrsta hátíðin var haldin 1. janúar árið 2018.“ Ragnar segir að síðan hafi kvarnast úr skipulagshópnum en eftir standi þau tvö, hann og Kristín. „Við höfum verið með þetta á okkar herðum.“ Hefðu viljað hafa enn fleiri með Að finna ljóðskáld til að taka þátt hefur ekki reynst erfitt, heldur frekar hversu margir koma til greina. „Við reynum að bjóða flestum sem eru með nýjar ljóðabækur og öðru fólki, við erum alltaf í vandræðum með það að það eru of margir sem við myndum vilja hafa þótt þetta séu þrjátíu manns,“ segir hann. Ljóst er að það er mikil gróska í íslenskri ljóðagerð. „Ljóðið er ekki dautt í öllum æðum þótt það kalli ekki eða öskri hátt.“ Kristín tekur undir það. „Það eru mörg mjög sterk ljóðskáld á Íslandi.“ Erlend skáld sem yrkja á íslensku Ragnar bendir á að fjölbreytnin sé mikil. „Það er breidd í ljóðrænni tilfinningu og tjáningu sem er óræð á milli skálda. Án þess að þetta sé einhvers konar keppni þá er eitthvað ákveðið og sérstakt við íslensku senuna.“ Á meðal þeirra sem hana skipa eru skáld sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. „Við erum svo heppin að það er fólk sem er aðflutt sem tekur þátt í þessari senu. Við erum með nokkuð marga sem hafa íslensku ekki að móðurmáli en kjósa að skrifa og tjá sig á íslensku,“ segir hann. „Þeir koma inn með aðra sýn á tungumálið, oft skapandi og ferska. Íslenska ljóðasenan er mjög blómleg.“ Mikill þverskurður og fjölbreytni Ljóðasenuna skipar skemmtilegt fólk samkvæmt Ragnari. „Eitt það skemmtilega við að lifa og hrærast í þessari ljóðasenu er fólkið. Þetta er svo skemmtilegur hópur skálda á Íslandi,“ segir hann og bætir við að aldursbilið sé breitt. „Sumir um áttrætt og aðrir rétt rúmlega tvítugir. Það er ansi mikill þverskurður og fjölbreytileiki í þessu.“ Dagskráin hefst sem fyrr segir um hálf tíu og lýkur rúmlega fimm. Öll eru velkomin að njóta hennar í Hljómskálanum þar sem hægt er að þiggja kaffi og piparkökur en einnig má njóta ljóðanna í streymi á RÚV.is og RÚV 2. Þrjátíu íslensk skáld taka þátt í ljóðaupplestri frá birtu til sólarlags á morgun, nýársdag. Þetta er í níunda sinn sem dagskráin fer fram og verður hún í beinni útsendingu.