„Draumar hafa fylgt okkur mjög lengi og til eru heimildir um draumatrú allt frá því að land byggðist“ segir Símon Jón Jóhannsson þjóðfræðingur. Berdreymi kemur oft til tals í fornsögum. Meðal þekktustu dæma eru draumar Guðrúnar Ósvífursdóttur í Laxdælu um fjóra eiginmenn. Íslendingar hafa alltaf verið mikil draumaþjóð og eru yfirleitt ófeimnir við að segja frá draumum sínum og ræða sín á milli. Hluti af þessari menningu er að trúa á berdreymi, að við fáum vísbendingar um ókomna atburði í draumum. Þekkt er að sjómenn dreymi fyrir óveðri eða góðum afla. Hrund Atladóttir myndlistarkona hefur rannsakað draumfarir og mælir með því að halda draumadagbók. Þannig má sjá tákn sem endurtaka sig í draumum og oftast standa þau fyrir ákveðna atburði í hversdeginum. „Allir geta lært inn á sitt draumsvið“.