Vinsælustu leitarorð Íslendinga árið 2025

Loftgæði er það leitarorð sem Íslendingar slógu oftast upp í leitarvél Google á árinu 2025. Umræða um loftgæði stingur reglulega upp kollinum, ekki síst í kringum áramót þegar flugeldagleði landans á það til að keyra um þverbak og þegar tími er kominn á dekkjaskipti á haustin. Í sumar urðu loftgæði svo vinsælt umræðuefni eftir að gosmóða lagðist yfir landið. Í öðru sæti listans má finna nafn bandaríska áhrifavaldsins Charlie Kirk. Hann var skotinn til bana á árinu. Þriðja sætið vermir Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins. Á listanum kennir ýmissa grasa. Í fjórða sæti er til að mynda Ed Gein, bandarískur raðmorðingi sem lést fyrir rúmum 40 árum. Í ár voru gefnir út vinsælir þættir um Gein á streymisveitunni Netflix sem bera heitið Monster. Íslendingar flettu nafni Hans Rolands Löf oft upp á árinu. Dóttir hans, Margrét Halla Hansdóttir Löf var í desember dæmd í 16 ára fangelsi fyrir að verða föður sínum að bana í Súlunesi í Garðabæ í apríl. Sjónvarpsþættirnir Adolescense eru í áttunda sæti. Þeir nutu gríðarmikilla vinsælda á fyrri hluta ársins. Þættirnir vöktu marga foreldra til umhugsunar um hvaða efni börn þeirra sjá á samfélagsmiðlum. Labubu-dúkkur hafa slegið í gegn um allan heim og þær rötuðu á topplistann yfir vinsælustu leitarorð Íslendinga. Vinsælt er að kaupa svokallaðar happaöskjur. Þá veit kaupandinn ekki hvers konar dúkka leynist í öskjunni fyrr en hún er opnuð. Í tíunda sæti eru Grænhöfðaeyjar. Handboltaáhugi Íslendinga gæti skýrt það. Íslenska karlalandsliðið mætti liði Grænhöfðaeyja á HM í handbolta í janúar. Leiknum lauk með afgerandi sigri íslenska liðsins, 34-21. Google í Danmörku tekur saman lista yfir vinsælustu leitir Íslendinga á hverju ári. Á listanum er litið til aukinna vinsælda leitarorða miðað við árin á undan. Listanum er því ætlað að gefa mynd af því sem Íslendingum var hugleikið á árinu. Til þess að svo megi verða er nokkrum orðum sem alltaf tróna á toppnum sleppt. Þeirra á meðal eru leitir að vefsíðum á borð við Facebook og YouTube sem og leitir að fréttamiðlum, líkt og RÚV, Vísi og Mbl. „Google-leitir eru skýr mælikvarði á hvað Íslendingar eru að velta fyrir sér, hvort sem það eru loftgæði eða alþjóðleg fyrirbæri á borð við Charlie Kirk og Labubu. Öll leitum við upplýsinga um það sem er að gerast til þess að skilja heiminn betur,“ segir Jesper Vangkilde, samskiptastjóri Google í Danmörku og á Íslandi. Google tekur líka saman lista yfir þá einstaklinga sem Íslendingar eru forvitnastir um. Sjónvarpsþættirnir Vigdís virðast hafa haft áhrif á niðurstöður ársins en þeir fjalla um ævi fyrsta lýðræðislega kjörna kvenforseta heims. Vigdís Finnbogadóttir er sá Íslendingur sem oftast var leitað að. Ofarlega á lista er dóttir Vigdísar, Ástríður Magnúsdóttir. Mest var leitað að Charlie Kirk. Hann var bandarískur áhrifavaldur á hægri væng stjórnmálanna sem var skotinn til bana á árinu. Fréttir af morði Kirks voru áberandi í haust og því ekki skrítið að Íslendingar hafi freistast til að fræðast betur um Kirk. Í meðfylgjandi frétt er leitast við að svara spurningunni: „Hver var Charlie Kirk?“ Fólk sem lést á árinu setur svip sinn á listann yfir vinsælustu leitarorðin. Þarna má finna myrkraprinsinn Ozzy Osborne, fótboltamanninn Diogo Jota, leikkonuna Diane Keaton og Michelle Trachtenberg. Sú síðastnefnda skaust upp á stjörnuhimininn ung að árum, fyrir leik sinn í Buffy the Vampire Slayer. Trachtenberg lést fyrr á þessu ári, á sínu 40. aldursári. Á lista yfir þá Íslendinga sem var mest leitað að má finna fyrrverandi þjóðhöfðingja, alþingismenn og ráðherra. Þar má finna nafn Gunnars Gylfasonar en í mars greindi Lífið á Vísi frá því að hann væri nýr kærasti Steinunnar Ólínu Þorsteinsdóttur leikkonu. Þá flettu margir upp nafni Þorleifs Kamban. Hann var grafískur hönnuður sem féll frá árinu, á sínu 44. aldursári. Stór fréttamál af innlendum vettvangi setja svip sinn á leitarsögu Íslendinga. Eiríkur Ásmundsson situr ofarlega á listum Google. Hann er barnsfaðir Ásthildar Lóu Þórsdóttur, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra. Í mars sagði Ásthildur Lóa af sér embætti eftir að forsætisráðuneytinu barst erindi um að hún hefði átt í ástarsambandi við 15 ára pilt þegar hún var 22 ára. Þau eignuðust barn ári síðar og var Ásthildur Lóa sökuð um tálmun. Ásthildur Lóa bæði hringdi í og heimsótti manneskjuna sem sendi erindið, eftir að hún varð ráðherra. Hrannar Markússon var í byrjun desember dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir þjófnað á hraðbanka úr útibúi Íslandsbanka í Mosfellsbæ á þessu ári. Talsvert var fjallað um hraðbankaránið á árinu en það er sennilega annað stærsta peningarán Íslandssögunnar. Hraðbanka með 20 milljónum króna var skóflað út úr byggingu með gröfu. Þórunn Óðinsdóttir situr einnig ofarlega á lista Google yfir þá Íslendinga sem oftast var leitað að. Hún var nýlega ráðin tímabundið í fullt starf hjá embætti ríkislögreglustjóra. Í október var greint frá vinnu félags hennar, Intru, fyrir ríkislögreglustjóra. Tveimur vikum eftir að fyrstu fréttir af viðskiptum ríkislögreglustjóra við Intru voru fluttar sagði Sigríður Björk Guðjónsdóttir af sér embætti sem ríkislögreglustjóri.