Þegar högg­bylgjan skellur á

Á árinu sem er að líða hafa orð löðrandi af hroka og hleypidómum flætt af slíku offorsi um samfélagsmiðla að úr hefur orðið einhvers konar höggbylgja mannvonsku. Það er að minnsta kosti sú tilfinning sem mörg sitja eftir með – ekki síst þau sem orðin beinast gegn: Fólk af ákveðnum uppruna. Fólk með ákveðna kynvitund. Fólk sem aðhyllist ákveðin trúarbrögð. Fólk með ákveðna kynhneigð. Fólk frá ákveðnum heimshlutum.