Búist er við rafmagnsleysi á Tálknafirði fram eftir degi. Íbúar hafa verið án rafmagns síðan fyrir klukkan tvö í nótt. Þór Magnússon, formaður heimastjórnar Vesturbyggðar á Tálknafirði, hefur reynt að ná í fólk á Tálknafirði í morgun en segir það hafa gengið illa þar sem net hafi dottið út og einhverjir símar væntanlega orðnir rafmagnslausir. Sjálfur er hann staddur á höfuðborgarsvæðinu. „Ég er búinn að vera að reyna að hringja á nokkra en það dettur allt út, það eru allir með þannig síma,“ segir Þór. Nokkrum sinnum hefur orðið rafmagnslaust á svæðinu á undanförnum vikum. Fyrr í mánuðinum olli bilun í varaaflsvél á Patreksfirði rafmagnsleysi á Tálknafirði í um fimm klukkustundir. „Maður bara áttaði sig ekki á því að það væri ekkert varaafl í firðinum sem væri tengt inn á netið,“ segir Þór. „Það eru allir háðir rafmagninu og við höfum kannski sofið á verðinum að átta okkur ekki á þessu,“ segir hann. Þór segir ítrekað rafmagnsleysi í firðinum sýna fram á að úrbóta sé þörf. „Við þurfum að virkja meira og búa til orku í nærumhverfinu svo við getum alltaf verið tengd,“ segir hann. Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, segir unnið að því að koma rafmagni aftur á. Bilun sé í spenni sem valdi því að ekki sé hægt að setja það inn á kerfið. Beðið er eftir varaaflsvélum sem eru á leiðinni frá Reykjavík. Reynt verði áfram að setja rafmagn inn á spenninn meðan beðið er eftir vélunum.