Rússneskir togarar fá áfram að veiða kolmunna, síld og makríl í færeyskri lögsögu á nýju ári gegn því að Færeyingar megi veiða rússneskan þorsk í Barentshafi. Samningur þessa efnis hefur verið framlengdur, þó með breytingum. Tilkynnt var um framlenginguna seint í gær. Samkomulag þessa efnis hefur verið til staðar frá árinu 1977. Eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 hefur samningurinn verið afar umdeildur, en Færeyingar segja hann mikilvægan fyrir efnahag sinn. Ein stór breyting er þó gerð á samningnum. Tvö rússnesk útgerðarfyrirtæki, Murman Sea Food og Norebo JSC, fá ekki þetta aðgengi. Evrópusambandið telur þau stunda njósnir fyrir rússnesk stjórnvöld og hafa því beitt þau viðskiptaþvingunum. Rússneska sendiráðið í Kaupmannahöfn hefur vísað því á bug að fyrirtækin stundi njósnir. Norðmenn hafa bannað skipum frá þessum fyrirtækjum að landa þar. Í samningnum nú er ákvæði um að skip frá þessum fyrirtækjum fái hvorki að veiða í lögsögu Færeyja né landa í höfnum þar. Að auki er kvótinn á þeim fiski sem þjóðirnar mega veiða í landhelgi hvor annars lækkaður, mismikið eftir fiskitegundum. Skömmu fyrir jól gerðu Norðmenn samkomulag við Rússa um þorskveiðar í Barentshafi. Sá samningur var í hættu eftir að Norðmenn settu efnahagsþvinganir á fyrrnefnd útgerðarfyrirtæki um leið og Evrópusambandið gerði það í sumar. Rússar hótuðu meðal annars að neita norskum skipum um aðgang að rússneskri landhelgi og setja sinn eigin kvóta á úthafinu í Barentshafi. Hvorugt gerðist og samkomulag náðist.