Lögregla sinnti að meðaltali 102 útköllum á dag á árinu sem er að líða, eða samtals 37 þúsund. Skráð hegningarlagabrot voru 12.500 eða 34 á dag, að því er fram kemur í bráðabirgðatölfræði lögreglu fyrir árið 2025. Í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra segir að met hafi verið slegið í haldlagningu fíkniefna á árinu. Lögregla og tollgæsla lögðu hald á 468 kíló af maríjúana og 106 kíló af kókaíni, meira en nokkru sinni áður. Þegar litið er til stórfelldra fíkniefnalagabrota voru innflutningsmál áberandi, 140 talsins. Það er aukning um 79 prósent miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Vasaþjófnaður skráður sérstaklega í fyrsta sinn Lögreglu var tilkynnt um tæplega 3.400 þjófnaði. Fjársvikamálum fjölgaði um 37 prósent en ránum fækkaði um 11 prósent. Lögregla segir vasaþjófnað hafa verið áberandi á árinu og á vormánuðum var byrjað að halda sérstaklega utan um skráningu slíkra brota í málaskrá lögreglu. 50 vasaþjófnaðarbrot voru skráð á árinu. Heildarfjöldi ofbeldisbrota var svipaður meðaltali síðustu þriggja ára, en brot sem töldust alvarleg eða stórfelld voru fleiri. Stórfelld ofbeldisbrot voru 230 og hafa aldrei verið fleiri sé litið til síðustu 20 ára. Sérsveitin var kölluð út 420 sinnum vegna tilkynninga um vopn á vettvangi. Oftast var um að ræða útköll vegna hnífs eða eggvopns eða í 73 prósentum tilfella.