Svipmyndir af innlendum vettvangi 2025: Færri eldgos, breytingar í borginni, tímamót og málþóf

„Ógnvænleg staða“ Í janúar hafði dýraþjónusta Reykjavíkur vart undan að sækja dauða eða veika fugla sem smitast hafa af skæðri fuglainflúensu. Dýralæknir sagði stöðuna ógnvænlega og sagðist aldrei hafa séð neitt í líkingu við þennan faraldur. Hættustigi var lýst yfir. Í mars fækkaði tilkynningum um dauða villta fugla til Matvælastofnunar. Þegar flestir farfuglar voru komnir til landsins var ekkert sem benti til þess að fuglainflúensuveirur bárust með þeim og var óhætt að væra viðbúnað af hættustigi niður á óvissustig. Bílstjóri og gröfustjóri í vandræðum Óreyndur ökumaður ætlaði að snúa við rútu á túninu við Höfð a í vætusömu veðri í febrúar. Rútan festist og lögreglan var kölluð út til aðstoðar. Eigandi rútufyrirtækisins sagði um mannleg mistök að ræða. Önnur slík urðu á hólmanum í Tjörninni í maí þegar grafa fór á hliðina. Einar ei meir Einar Þorsteinsson var borgarstjóri í byrjun árs. Á föstudagskvöldi í febrúar sleit hann meirihlutasamstarfinu í borginni. Hann vildi hefja meirihlutaviðræður Framsóknarflokksins við Sjálfstæðisflokkinn, Viðreisn og Flokk fólksins. Það gekk ekki eftir. Nýr meirihluti Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands, Vinstri grænna og Flokks fólksins tók við 21. febrúar og Heiða Björg Hilmisdóttir varð borgarstjóri. „Bara“ tvö eldgos Eldgos voru ögn fyrirferðarminni í ár en árin á undan. Tvö eldgos voru á Sundhnúksgígaröðinni, samanborið við sex í fyrra. Eldgos hófst að morgni 1. apríl en varði stutt. Sumir töluðu um aprílgabb. Áttunda gosið á Sundhnúksgígaröðinni var engu að síður staðreynd. Seinna gosið á árinu hófst 16. júlí og lauk 5. ágúst. Gosið var það níunda á Sundhnúksgígaröðinni en það tólfta á Reykjanesskaga frá því að goshrina hófst við Fagradalsfjall í mars 2021. Vigdísaræði á 95 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands fagnaði 95 ára afmæli 15. apríl. Hún var forseti á árunum 1980 til 1996 og braut blað sem fyrsta konan sem var lýðræðislega kjörin þjóðhöfðingi. Segja má að Vigdísaræði hafi gripið þjóðina í upphafi árs í kjölfar Vigdísar - leikinnar þáttaraðar Vesturports, sem sýnd var á RÚV, um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur þar til hún var kjörin forseti. Síðasti fréttatími Boga Bogi Ágústsson fréttamaður las sinn síðasta fréttatíma í sjónvarpi 29. apríl . Bogi hefur starfað á Ríkisútvarpinu í hátt í hálfa öld og verið tíður gestur á sjónvarpsskjám landsmanna. Bogi hefur ekki alveg sagt skilið við ljósvakamiðla en hann ræðir heimsmálin alla fimmtudaga í Morgunvaktinni á Rás 1. Mótmæli við ríkisstjórnarfund Hópur fólks mótmælti þjóðarmorði Ísraelsmanna á Palestínumönnum oftar en einu sinni á þessu ári. Fjöldi fólks kom saman í maí og mótmælti þátttöku Ísraels í Eurovision sem og þeirri ákvörðun Íslands að taka þátt. Nú er ljóst að Ísland tekur ekki þátt í Eurovision 2026 . Bruni á Hjarðarhaga Sári Morg Gergó braut rúðu til að komast út úr brennandi íbúð sinni þegar eldur kviknaði í maí. Sári svaf þegar eldurinn kviknaði og hélt að sig væri að dreyma þegar hann opnaði dyrnar fram á gang og horfði beint í eldinn. Hann telur að kveikt hafi verið í. Tveir létust í brunanum, sem er enn til rannsóknar hjá lögreglu. Græna gímaldið Eftir langa rimmu um græna gímaldið lentu íbúar við Árskóga í Breiðholti aftur upp á kant við borgina í sumar, nú vegna göngustígs beint fyrir utan stofuglugga íbúa. Málþóf Frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingu á veiðigjaldi var rætt í 160 klukkustundir. Þegar ekkert þokaðist í samkomulagsátt til að ljúka málinu og þar með þingstörfum lagði Þórunn Sveinbjarnardóttir, forseti Alþingis, til að umræðu um veiðigjaldsfrumvarpið verði hætt og gengið til atkvæða. Hún sagði að forseti beitti þessari heimild, sem á sér stoð í 71. grein þingskaparlaga , aðeins að vel íhuguðu máli. Ákvæðinu hefur ekki verið beitt síðan 1959. Viðvaranir og lokunarhlið í Reynisfjöru Nýtt viðvörunarskilti og lokunarhlið var sett upp í Reynisfjöru í lok sumars, eftir að níu ára þýsk stúlka drukknaði í byrjun ágúst. Þegar rautt ljós blikkar er metin mikil hætta og óheimilt að fara niður að stuðlabergi og í Hálsanefshelli. Margir telja áhættunnar virði að ná mynd af sér við flæðarmálið í Reynisfjöru þrátt fyrir skýrar merkingar um hættulegar aðstæður. Fall Play Flugfélagið Play varð gjaldþrota í lok september. Öllum ferðum félagsins var aflýst og um fjögur hundruð manns misstu vinnuna. Tæplega tíu þúsund manns urðu strandaglópar á Íslandi og erlendis vegna aflýstra flugferða. Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, sagði að reksturinn hafi verið þungur lengi og oft svolítið þröngt í búi, lengst af hafi þó tekist að öngla saman fyrir útgjöldum. „Að þessu sinni má segja að síðustu vikur hafi verið okkur dálítið þungar.“ Kvennaverkfall í hálfa öld Tugir þúsunda lögðu niður störf og fjölmenntu á útifundi 24. október, þegar hálf öld var liðin frá fyrsta kvennafrídeginum. Fyrsta haustlægðin og fyrsti snjórinn Kuldamet, snjódýptarmet og hitamet voru slegin í sveiflukenndum október . Fyrsta haustlægðin gerði vart við sig snemma í október en í lok mánaðarins féll snjódýptarmet í Reykjavík. Dóra Björt skiptir yfir til Samfylkingarinnar Stjórnmálamenn eru farnir að huga að sveitarstjórnarkosningum næsta vor. Um miðjan desember gekk Dóra Björt Guðjónsdóttir úr Pírötum og til liðs við Samfylkinguna. Sveitarstjórnarkosningar verða 16. maí 2026.