Rafmagn er aftur komið á í Tálknafirði sem hafði verið án þess síðan klukkan tvö í nótt þegar spennir í tengivirkinu á Kaldeyri fór. Búið er að tengja varaspenni sem fyrir var í tengivirkinu og var rafmagni hleypt aftur á á fjórða tímanum. Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, segir að trúlega verði varaspennirinn notaður næstu mánuði. Nokkrum sinnum hefur orðið rafmagnslaust á svæðinu á undanförnum vikum. Rafmagnslaust varð í fimm klukkustundir á Tálknafirði 11. desember og olli því meðal annars að 20 þúsund fiskar í landeldi Tungusilungs drápust. „Okkur þykir þetta auðvitað mjög slæmt að þetta skuli koma upp og við erum auðvitað að kanna líka hverjar eru ástæðurnar, hvort að þessir tveir viðburðir kunni að vera tengdir,“ sagði Elías Jónatansson, orkubússtjóri Orkubús Vestfjarða, í hádegisfréttum.