Stærstu fréttir ársins samkvæmt álitsgjöfum í Uppgjörsþætti Rásar 1 fyrir árið 2025 voru meðal annars um ósannindi stjórnmálamanna, breytingu veiðigjalds, söluna á Íslandsbanka, skómálið mikla í Borgarholtsskóla og fall Play. Í innlendum annál komu þau Haukur Holm fréttamaður, Helga Vala Helgadóttir lögmaður og fyrrverandi fréttamaður, Hörður Ægisson ritstjóri Innherja og Þórhildur Þorkelsdóttir, ráðgjafi og hlaðvarpsstjórnandi. Breyting veiðigjaldanna var fyrirferðamikil í umræðum um innlendar fréttir ársins, enda var umræðan um þær sú lengsta í sögunni á Alþingi. Hörður taldi ríkisstjórnina hafa misst salinn hjá atvinnulífinu, eftir að hafa farið af stað með velvild þess meðal annars vegna óþols í garð verkleysis fyrri ríkisstjórnar og hnitmiðuðum loforðum í stjórnarsáttmála. Flest sjávarútvegsfyrirtæki hafi verið undir það búin að veiðigjöld yrðu sannarlega hækkuð - en væru ósátt með framkvæmdina og þann hraða sem málið var unnið á. Helga Vala var ósammála og taldi málið hafa orðið að fara í gegn með þeim hætti sem gert var. Hins vegar hafi stjórnarandstaðan misst sinn trúverðugleika hjá meginþorra almennings með því hvernig hún tókst á við málið, þeas með fyrrgreindu málþófi. Þegar til lengri tíma litið séu tekjurnar sem fylgir hækkun veiðigjaldsins nauðsynlegar til að standa undir rekstri samfélagsins. Haukur Holm sagði það ekki hafa komið á óvart að málið hafi verið rekið með þeim hætti sem gert var, það hafi verið yfirlýst af hálfu stjórnarflokkanna að þetta stæði til. Þórhildur sagði einnig að þorri þjóðarinnar hafi einmitt kallað eftir þessari hækkun, en að mögulega hafi þetta verið gert ansi bratt. Mögulega hefði verið hægt að taka betur inn byggðasjónarmið og gera þetta í skrefum. Hópurinn var sammála um að uppgangur Miðflokksins í skoðanakönnunum séu einnig meðal tíðinda ársins. Þórhildur heldur því fram að komandi sveitarstjórnarkosningar, sem verða þann 16. maí, verði þær áhugaverðustu síðustu ár. Þá bar staða Flokks fólksins innan ríkisstjórnarinnar einnig á góma. Flokkurinn hafi lent í nokkrum vandræðamálum strax í upphafi. Helga Vala vildi meina að Inga Sæland geti ekki sinnt þremur ráðherraembættum í einu. Hörður sagði að það hafi verið eftir því tekið síðast þegar flokkurinn lenti í vandræðum, í skólastjóramálinu svokallaða, hafi Viðreisn ekki tekið til varna fyrir Flokk fólksins. Mögulega sé þolinmæði samstarfsflokkanna, Viðreisnar og Samfylkingarinnar, gagnvart axarsköftum flokksins að fara þverrandi. Þá var farið yfir svartari horfur í efnahagslífinu, Icelandair sé áfram í vandræðum, atvinnuleysi sé að aukast hratt, hægst hafi á fasteignamarkaðnum, fyrirtæki séu að halda að sér höndum ásamt öðru. Álitsgjafarnir voru einnig beðnir um að rifja upp skemmilegar fréttir af árinu. Haukur rifjaði upp fréttina af manninum sem játaði á sig bankarán 50 árum eftir að það var framið. Þórhildur, sem eignaðist sjálf barn á árinu, minntist konunnar sem eignaðist óvænt barn í nóvember og Hörður frétt um það þegar Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra, í umræðum á þinginu um hjartalaga umferðarljós á Akureyri, reyndi að gera hjartamerki með höndunum en tókst ekki betur til en svo að úr varð tígull. Skemmtilegasta frétt ársins hjá Helgu Völu var þegar nefhjólið datt af kennsluflugvél yfir Austurvelli og Vilhjálmur Sigurðsson, betur þekktur sem Villi á Benzanum, var þar staddur til að bjarga málunum. Þau Baldvin Þór Bergsson og Fanney Birna Jónsdóttir tóku á móti álitsgjöfum í hljóðstofu rétt fyrir áramót og gerðu upp árið á innlendum og erlendum vettvangi. Hlusta má á þáttinn í Spilara RÚV hvenær sem er.