Hugrún, deildarstjóri barna- og ungmennadeildar á bókasafni Hafnarfjarðar, fór yfir barnabókaárið og spáði fyrir um það næsta. Hún ljóstraði upp hvernig bækur eru vinsælar og hverjar henni finnst vanmetnar. Auk þess sagði hún frá starfinu á bókasafninu og flutningunum á næsta ári. Hengdu ljóð og örsögur um allan bæ Bókasafn Hafnarfjarðar breytti hinum hefðbundna sumarlestri í ár og hélt í staðinn ljóða- og örsagnakeppni. ,,Þetta var svona fjölskylduverkefni. Þetta var útivera og kom á framfæri hugarheimi barnanna.’’ Meðal viðfangsefna voru VÆB-bræður, fótbolti, missir og dáleiðslu-pítsastaður sem nýi bæjarstjórinn rekur. Verkin voru svo hengd um allan Hafnarfjarðarbæ og fjölskyldur reyndu að lesa sem flest þeirra til að fá glaðning á bókasafninu. Ráðgátur komu sterkar inn Ráðgátubækur voru vinsælar meðal krakka í ár. Sem dæmi má nefna bókaflokkinn Spæjarastofa Lalla og Maju, bækur Kristina Ohlsson og Drottningin af Galapagos eftir Felix Bergsson. ,,Ráðgátur eru að koma skemmtilega sterkt inn í ár og mér finnst það mjög ánægjulegt út af því að það krefst gagnrýnnar hugsunar.’’ Hugrún nefnir líka náttúrufantasíur og sæskrímsli sem vinsælt lesefni meðal barna og ungmenna á árinu. Það sé svo alltaf eftirspurn eftir hversdagslegri bókum sem bjóða upp á speglun. ,,Þannig bækur eru ekki í hillu. Þess vegna tökum við varla eftir því þegar þær lánast út því við sjáum þær aldrei inn á milli.’’ Erfitt að segja til um hvað unglingar lesa Hugrún segir erfiðara að greina hvernig bækur unglingar sækjast í. Það sé lítið gefið út fyrir þau svo þau seilast oft í bækur á ensku eða ,,fyrir fullorðna’’. Meira fjármagn þurfi til að fjölga íslenskum ungmennabókum. ,,Ég held að unglingar séu svo vanmetin auðlind hjá okkur. Kynslóð fyrir kynslóð erum við að gera ráð fyrir ýmsu varðandi unglinga.’’ Það er mikilvægt að bókmenntir sýni unglingum alls kyns útgáfur af heiminum. Svo er það þeirra að smakka á öllu og finna sinn smekk. Bundið mál og leikrit vanmetin Hugrún segir fullorðið fólk oft vanmeta lestrargetu krakka. Starfsfólk bókasafnsins reynir að grípa inn í svoleiðis samtöl og minna fólk á að það má alltaf leggja bókina frá sér ef hún reynist of erfið. ,,Krakkar geta bara svona flest sem þau vilja ef þau leggja sig fram og fá tækifæri til þess að prófa sig.’’ Að auki finnst henni bundið mál og leikrit vanmetin. Bækurnar Súrsæt skrímsli eftir Agnesi Wild, Enginn sá hundinn og En við erum vinir eftir Hafstein Hafsteinsson er góður byrjunarreitur fyrir þau sem vilja demba sér í þess háttar texta. Vilja sjá myndasögur, grín, krakkahrylling og sjálfsútgáfu Á næsta ári dregur verulega úr viðburðarhaldi Bókasafns Hafnarfjarðar vegna flutninga. Hvað varðar bækur spáir Hugrún því að myndasögur og sjálfsútgáfa verði vinsæl. Bókaormarnir Hrannar og Róbert Máni vilja líka fleiri myndasögur. Þeim fannst margar barnabækur sem komu út í ár fyndnar og vilja að það þema haldi áfram á næsta ári. ,,Það voru margar barnabækur að koma út í ár, minni unglingabækur,’’ segir Róbert Máni. Fyrir utan myndasögur vilja þeir líka fleiri hryllingssögur fyrir krakka og fullt af grínsögum. Rætt var við Hugrúnu Margréti Óladóttur, Hrannar Þór Andrason og Róbert Mána Kolbrúnarson í Hvað ertu að lesa? á Rás 1. Þátturinn er í spilaranum hér fyrir neðan. Í síðasta þætti af Hvað ertu að lesa? gerði Embla upp barnabókaárið ásamt Hugrúnu Margréti Óladóttur, frá bókasafni Hafnarfjarðar, og bókaormunum Hrannari og Róberti Mána.