Gróðureldur kviknaði í Húsavíkurfjalli á sjötta tímanum á gamlárskvöld. Allt tiltækt slökkvilið í Norðurþingi og nágrannasveitarfélaginu Þingeyjarsveit hafa barist við eldinn í kvöld í þurrum gróðrinum. Henning Þór Aðalmundsson, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, sagði þeim hafa tekist að slökkva síðustu glæringarnar upp úr klukkan sjö í kvöld. Eldurinn hafi þó verið mikill og erfitt að ráða niðurlögum hans. Hann hafi dreifst hratt þegar fór að blása. „Ég á von á meiru í kvöld“, segir Henning. „Veðurguðirnir stóðu bara ekki við sitt“. Þá vísar slökkviliðsstjórinn til úrkomuspár sem ekki rættist. Hafa áhyggjur af þurrki á fleiri stöðum Henning segir slökkvilið víðar um Norðurland deila áhyggjum þeirra af þurrum gróðri. Því verði fólk að fara sérstaklega varlega með eld þetta gamlárskvöld. Henning telur það nokkuð öruggt að eldurinn ofan Húsavíkur hafi kviknað út frá flugeldum. Bæði slökkviliðið og sveitarfélagið hafa beðið íbúa að halda aftur af sér í meðferð skotelda.