Hver stórfréttin rak aðra á viðburðaríku fréttaári 2025. Ráðherra sagði af sér, örfáum mánuðum eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum og borgarstjóri velti sjálfum sér úr sessi eftir um ár í embætti og nýr meirihluti tók við völdum. Og vorþingið fer í sögubækurnar fyrir margra hluta sakir; mál sem ríkisstjórnin taldi að hún kæmi auðveldlega í gegn reyndist ekki svo auðvelt. Mini-málþóf um plasttappa og fríverslunarsamninga og þegar kom að veiðigjöldum má segja að fjandinn hafi orðið laus. Þá gekk margt á í heimi löggæsluyfirvalda. Upplýst var um umfangsmikinn gagnaþjófnað úr kerfum sérstaks saksóknara, sem tveir fyrrverandi starfsmenn embættisins eru grunaðir um að hafa stolið. Þeir eru einnig grunaðir um að hafa setið um og njósnað um fólk, með liðsinni varðstjóra í umferðardeild. Og ríkislögreglustjóri sagði af sér vegna viðskipta við ráðgjafarfyrirtæki upp á 160 milljónir króna. Tvö eldgos voru í Grindavík og Grindvíkingar eru staðfastir í að reisa bæinn á ný. Og hernaðarbrölt úti í heimi og aukinn vígbúnaður nágrannaþjóða fór ekki fram hjá herlausu þjóðinni hér í Norður-Atlantshafi. Við förum yfir helstu fréttir ársins í fréttaannál 2025. Enn eitt viðburðaríka fréttaárið er að baki; tollar og vextir, eldgos og ofbeldi, veiðigjöld og afsagnir er meðal þess sem fjallað var um. Og stríðsátök, friðarviðræður og vopnahlé sömuleiðis.