Búlgaría varð 21. ríkið til að taka upp evruna sem gjaldmiðil þegar nýja árið gekk þar í garð á fimmtudag. Landið lagði þar með niður búlgarska lefið, sem hefur verið í notkun síðan á seinni hluta 19. aldar. Lefið hefur þó verið fest við gengi annarra gjaldmiðla frá árinu 1997, fyrst þýska marksins og síðan evrunnar. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði upptöku evrunnar marka „mikilvægan áfanga fyrir landið, fyrir sögu evrunnar og fyrir Evrópusambandið í heild sinni“. Von der Leyen bætti við að upptaka evrunnar myndi skila búlgörskum borgurum og fyrirtækjum beinum ávinningi með því að auðvelda ferðir og búsetu erlendis, auka gegnsæi og samkeppnishæfni markaða og liðka til fyrir verslun. Rosen Zeljazkov, fráfarandi forsætisráðherra Búlgaríu, sagði ríkisstjórn hans hafa unnið tímamótaafrek. „Búlgaría lýkur árinu með verga landsframleiðslu upp á 113 milljarða evra og hagvöxt upp á rúm þrjú prósent, sem gerir hana eina af fimm efstu ríkjunum í ESB.“ Upptaka evrunnar er ekki óumdeild meðal landsmanna. Í skoðanakönnun frá maí 2025 sögðust 46,5% Búlgara fylgjandi upptöku evrunnar en 46,8% mótfallnir henni. Þeir sem eru mótfallnir henni óttast að gjaldmiðlaskiptin kunni að auka verðbólgu og draga úr fjárhagslegu sjálfstæði ríkisins. Þá óttast sumir að upptaka evrunnar muni veikja þjóðernissjálfsmynd Búlgaríu. Rúmen Radev forseti hafði farið fram á að málið yrði lagt í þjóðaratkvæðagreiðslu en þingið varð ekki við kröfu hans.