Finnar stöðvuðu skip á leið frá Rússlandi á morgni gamlársdags vegna gruns um að skipið hefði unnið skemmdarverk á fjarskiptastreng neðansjávar. Finnska fjarskiptaþjónustan Elisa greindi frá því um morguninn að sæstrengur frá Finnlandi til Eistlands hefði orðið fyrir skemmdum. Finnska landamæragæslan hóf rannsókn og stöðvaði síðan flutningaskipið Fitburg, sem hafði verið á leið í gegnum efnahagslögsögu Finnlands frá Sankti Pétursborg. Landamæragæslan telur skipið hafa varpað akkeri sínu og dregið það yfir hafsbotninn þar sem sæstrengurinn liggur. Samkvæmt tilkynningu frá finnsku lögreglunni var Fitburg stöðvað og flutt á ótilgreindan „öruggan stað“ á meðan rannsókn fer fram. Áhöfnin er grunuð um stórfelld eignaspjöll, tilraun til stórfelldra eignaspjalla og stórfelldar truflanir á fjarskiptum. Auk lögreglunnar í Helsinki tóku landamæragæslan og þyrlur á vegum finnska hersins þátt í aðgerðinni til að stöðva skipið. „Þessi hafaðgerð sýndi enn á ný fram á skjótleika lögreglunnar og annarra stjórnvalda og snurðulaust samstarf þeirra innan valdsviðs hvers þeirra um sig,“ sagði Ilkka Koskimäki ríkislögreglustjóri í tilkynningunni. Fitburg flaggar skipsfána Sankti Vinsent og Grenadína en skipverjarnir, sem eru fjórtán talsins, eru frá Rússlandi, Georgíu, Kasakstan og Aserbaísjan. „Ég hef áhyggjur af skemmdunum sem greint hefur verið frá,“ skrifaði Alar Karis forseti Eistlands í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). „Vonandi var þetta ekki viljaverk en rannsóknin mun leiða það í ljós.“