Xi Jinping forseti Kína sór þess eið að endursameina Kína og Taívan undir einni stjórn í áramótaávarpi sínu til þjóðarinnar á gamlársdag. Var þá liðinn einn dagur frá lokum umfangsmikilla heræfinga Kínverja í kringum Taívan þar sem sjóherinn, strandgæslan, loftherinn og flugskeytaherinn umkringdu eyjuna og líktu eftir hafnarbanni. „Endursameining móðurlands okkar, sem er í takt við tíðarandann, er óstöðvanleg,“ sagði Xi í ávarpinu. Kína lítur á Taívan sem óaðskiljanlegan hluta af yfirráðasvæði sínu en eyjan hefur í reynd verið óháð meginlandinu frá árinu 1948, þegar stjórn kínverskra þjóðernissinna flúði þangað undan her kommúnista í lok kínversku borgarastyrjaldarinnar. Stjórnin á Taívan hefur aldrei formlega lýst yfir sjálfstæði frá Kína en íbúar eyjarinnar eru í seinni tíð orðnir æ fráhverfari hugmyndinni um að sameinast stjórninni á meginlandinu. Í síðustu þremur forsetakosningum hafa frambjóðendur sem aðhyllast sjálfstæði Taívans borið sigur úr býtum. Lai Ching-te, forseti Lýðveldisins Kína (en svo heitir stjórnin á Taívan formlega), varaði aftur á móti við „auknum útþenslumetnaði“ Kína í áramótaávarpi sínu til íbúa Taívans. Hann biðlaði til stjórnarandstöðuflokka á taívanska þinginu að hætta að beita sér gegn sérlögum um hækkun á útgjöldum Taívans til varnarmála. „Gagnvart uggvænlegum hernaðarmetnaði Kína hefur Taívan engan tíma til að bíða og sannarlega engan tíma til að tapa áttum í innanlandsdeilum,“ sagði Lai.