Fimmtán leituðu á bráðamóttöku Landspítala í gær og í nótt vegna flugeldaslysa, sjö sinnum fleiri en um síðustu áramót. „Verkefnin voru að hluta til flugeldaslys, ívið fleiri en í fyrra. Við erum að tala um 15 í heildina sem við erum með núna, þar af voru átta tengd augum,“ segir Páll Óli Ólason, læknir á bráðamóttökunni. „ Í fyrra voru tvö flugeldaslys og þetta er heilmikil aukning.“ Páll segir augnáverkana misalvarlega og sumir muni þurfa á einhvers konar inngripum eða aðgerðum að halda. Hin sjö flugeldaslysin voru aðallega á útlimum fólks að sögn Páls og líklega munu einhverjir þurfa að fara í aðgerð vegna þess. Af öðrum verkefnum bráðamóttöku þessa fyrstu nótt ársins nefnir Páll áverka sem voru afleiðing áfengisneyslu og skemmtanahalds. Flugeldum stolið og eftirlýstur maður hlaupinn uppi Verkefni lögreglu og slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu voru ærin á nýársnótt eins og verða vill og sex voru vistaðir í fangageymslum. Brotist var inn í flugeldasölu, þar voru skemmdir unnar á húsnæði og nokkru af skoteldum stolið. Talsvert var um útköll vegna gróðurelda af völdum flugelda, eldur kom upp í mannlausu húsi og maður stakk annan með hníf í Austurstræti, sá hlaut óveruleg meiðsl. Lögregla hljóp uppi erlendan mann sem hafði verið eftirlýstur og verður hann sendur úr landi. Gekk út í sjó en kom til baka Upp úr miðnætti var tilkynnt um mann sem sást ganga út í sjó til móts við Skúlagötu, björgunarsveit hugðist sjósetja bát og sækja hann en þá hafði hann komið sér sjálfur á þurrt land. Þá var talsvert um ölvunarakstur, kvartanir vegna skemmtanahalds og ölvaðs fólks.