Laufey í hópi þeirra sem að hljóta fálkaorðuna

Forseti Íslands sæmdi 14 Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í dag. Fálkaorðan er veitt tvisvar á ári, annars vegar á nýársdag og hins vegar á þjóðhátíðardegi Íslendinga þann 17. júní. Þessir voru sæmdir heiðursmerki fálkaorðunnar á nýársdag. Anna Júlíana Sveinsdóttir, söngkona og söngkennari, fyrir framlag til klassískrar tónlistarmenntunar. Ásgeir Sigurvinsson, fyrrverandi knattspyrnumaður, fyrir afreksárangur í knattspyrnu. Bragi Valdimar Skúlason, hugmynda- og tónhöfundur, fyrir framlag til þróunar og varðveislu íslenskrar tungu. Guðrún Þorgerður Larsen, jarðfræðingur, fyrir framlag til jarðvísinda og almannavarna. Ingólfur Guðnason, garðyrkjufræðingur, fyrir frumkvöðlastörf í lífrænni ræktun og kennslu. Karl Gunnarsson, sjávarlíffræðingur, fyrir framlag til rannsókna á botnþörungum, lífríki hafsins og vistkerfi strandsvæða. Kristján Kristjánsson, heimspekingur og prófessor, fyrir kennslu- og fræðistörf á vettvangi siðfræði og mannkostamenntunar. Laufey Lín Bing Jónsdóttir, tónlistarkona, fyrir framlag til tónlistar á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Pálmi V. Jónsson, lyf- og öldrunarlæknir og prófessor emeritus, fyrir framlag til öldrunarlækninga og nýsköpunar í öldrunarþjónustu. Rósa Marinósdóttir, hjúkrunarfræðingur, fyrir sjálfboðastörf í þágu íþróttaiðkunar ungs fólks um allt land og framlag til samfélagsmála í heimabyggð. Sigríður Sigurðardóttir, fyrrverandi safnstjóri, fyrir framlag til varðveislu torfbæja og annarra menningarminja. Valgerður Benediktsdóttir, fyrrverandi réttindastjóri, fyrir framlag til framgangs íslenskra bókmennta á erlendri grundu. Yngvi Pétursson, fyrrverandi rektor og kennari, fyrir framlag til menntunar og brautryðjendastarfs í tölvufræðikennslu á Íslandi. Þórey Einarsdóttir, umsjónarkona, fyrir framlag til heimilislausra og bágstaddra Stolt af því að vera íslensk Laufey Lín segir það fyrst og fremst vera mikinn heiður að vera sæmd heiðursmerki fálkaorðunnar. „Ég er bara svo ótrúlega stolt af því að vera íslensk, það er tilfinningin í dag, ég er spennt að fara aftur í heiminn og halda áfram að tala um Ísland.“ Söngkonan segir að fálkaorðan muni líklega fá pláss við hlið Grammy-verðlauna sinna.