Telur að takmarka þurfi aðgengi að flugeldum vegna mengunar

Varað hafði verið við að talsverð mengun gæti myndast á höfuðborgarsvæðinu vegna flugeldanna í gær. Sú spá reyndist sönn þar sem nánast logn var í borginni. Hrund Ólöf Andradóttir, prófessor í umhverfis- og byggingarverkfræði, segir að við þessar aðstæður sé lítil sem engin þynning á mengun og því geti hlutfall hennar í lofti orðið hátt. „Við mælum svifryksmengun, sem eru svona fínar agnir, í mikrógrömmum á rúmmetra og venjulega viljum við að þessi gildi fyrir fínu minnstu agnirnar sem eru langhættulegastar vegna þess að þær komast alveg djúpt ofan í lungun séu langt undir fimmtán. Hæstu klukkustundarmeðaltölin voru sex hundruð,“ segir Hrund. Slík gildi hafi meðal annars mælst við Grensásveg, á Dalvegi og við Hlíðarfót í nýja Valshverfinu. Skaðlegri mengun en önnur Mengun af völdum flugelda er að sögn Hrundar skaðlegri en mengun sem hlýst af til dæmis umferð, þar sem í flugeldum megi meðal annars finna þungmálma og þá myndast efnið benzopyrene þegar þeir eru sprengdir. Efnið er krabbameinsvaldandi og myndast við bruna. Hrund segir mengunargildi líkt og þau sem mældust í gær ekki eiga að sjást í þéttbýli og að sorglegt sé að horfa upp á þau á hverju ári. „Mér finnst bara að það eigi að takmarka flugelda. Ég held að reynslan sýni það að það er ekki hægt að setja það upp í hendur á almenningi að taka skynsamlegar ákvarðanir,“ segir Hrund Ólöf. Varðandi flugeldanotkun? „Já.“ Engin met fallin Þrátt fyrir að mengun í gær hafi verið mikil féllu engin met hvað varðar mengun af flugeldum. Verstu gildin hafi verið áramótin 2017 til 2018. „Þetta er sem betur fer lægra en það var bara eins og það væri eldgos í gangi, það féll svo mikið svifryk niður en þá vorum við að mæla allt að 3000 míkrógrömm á rúmmetra í Dalsmáranum í Kópavogi,“ segir Hrund. „Þetta er lægra en það en þetta eru samt rosalega há gildi,“ segir Hrund um mengun þetta árið.