Pétur vill leiða Samfylkinguna í Reykjavík

Pétur Marteinsson rekstrarstjóri og fyrrverandi knattspyrnumaður gefur kost á sér í oddvitasæti í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Þetta staðfestir Pétur í samtali við fréttastofu. „Ég var að taka ákvörðun. Þetta er búið að vera aðeins að þróast með mér og ég hef ákveðið að fara í prófkjör Samfylkingarinnar um oddvitasætið.“ Áður hefur komið fram að Pétri höfðu borist fjöldi áskorana um að bjóða sig fram fyrir Samfylkinguna í vor. Pétur hefur ekki starfað áður með flokknum á formlegan hátt. Hann telur að reynsla sín úr atvinnu- og íþróttalífi ætti að nýtast vel, verði hann kjörinn fulltrúi og margt sé á réttri leið í borginni. „En svo er ýmislegt sem má breyta. Verandi stoltur Reykvíkingur vill maður að borgin virki.“ Kominn til að hafa áhrif Ef þú færð ekki brautargengi í oddvitasætið, muntu taka eitthvað annað sæti á lista? „Já. Ég er keppnismaður og hef aldrei farið út í leiki án þess að vilja vinna. Ég fer ekki með það að markmiði að tapa. Kosningarnar í vor eru lykilatriði, þær verða mikilvægar. Stærsti flokkur á landinu á að vera með prófkjör. Oddviti þarf að vera með gott umboð farandi inn í þær kosningar. Og ég er bara klár í það.“ Verðir þú oddviti Samfylkingarinnar og ef flokkurinn kemst í þá stöðu að mynda meirihluta: viltu verða borgarstjóri? „Já, það er augljóst. Ég er kominn til að hafa áhrif.“ Eðlilegt að hafa samband við Kristrúnu Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar staðfesti fyrir ríkisráðsfund í lok ársins að hún hefði rætt við Pétur um mögulegt framboð hans. Spurður hver hafi átt frumkvæðið að þeim fundi svarar Pétur: „Ég hafði samband við hana. Þegar ég fór í alvöru að hugsa þetta fannst mér eðlilegt að hafa samband við Kristrúnu og fleira fólk í flokknum til að hlera hvort þetta væri eitthvað sem ég ætti að stefna að. Mér fannst án þess að fá eitthvað skýrt svar hvort hún myndi styðja mig, þá fannst mér alveg stemning fyrir því.“ Er þetta framboð til höfuðs Heiðu Bjargar Hilmisdóttur? „Nei, alls ekki.“ Prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík verður 24. janúar og niðurstaðan verður bindandi fyrir sex efstu sætin en uppstillingarnefnd raðar í önnur sæti. Frestur til að skila inn framboði rennur út 3. janúar og flokksmenn einir hafa atkvæðisrétt.