„Með því besta sem ég hef séð“

Viðmælendur fréttastofu voru hæstánægðir með áramótaskaupið. Sóli Hólm í gervi Ingu Sæland og bílastæðamál á Keflavíkurflugvelli stóðu upp úr. „Mér fannst þetta eiginlega bara besta skaup sem ég hef séð, ekkert smá gott,“ segir Kristinn Þrastarson. Hann og Júlía Ísaksen voru sammála um að viðskipti embættis ríkislögreglustjóra við ráðgjafafyrirtækið Intru-ráðgjöf og Sóli Hólm í gervi Ingu Sæland hafi staðið upp úr. Hafdís Vilhjálmsdóttir sagði mörg góð atriði hafa verið í Skaupinu. „Með því besta sem ég hef séð.“ Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, segir að mikið hafi verið hlegið að Skaupinu á Bessastöðum. Hún segist fegin að vera komin með staðgengil fyrir eiginmann sinn. „Ég get kannski fengið Jón Jónsson til þess að fara með mér á atburði þegar Just Björn er upptekinn.“