May Britt Buhaug, framkvæmdastýra stærstu kvennasamtaka Noregs, Norske Kvinners Sanitetsforening, segir starfsfólk samtakanna hafa orðið vart við aukningu í fjölda kvenna sem tilkynni heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi af hendi maka sinna í aðdraganda réttarhalda yfir Marius Borg Høiby, syni norsku krónprinsessunnar. Starfsfólkið búist við enn meiri aukningu þegar réttarhöldin hefjist. Buhaug segir fjölmiðlaumfjallanir um mál sem þetta lækka þröskuld kvenna þegar komi að því að leita sér hjálpar eftir ofbeldi. Opinská umræða rjúfi þöggun. „Þó það [málið] sé hörmulegt virðist sem þetta mál geti stuðlað að því að rjúfa þögnina sem ríkir um ofbeldi í nánum samböndum og nauðganir,“ segir Buhaug. Samkvæmt tölfræði frá norsku rannsóknarmiðstöðinni um ofbeldi og áfallastreitu (NKVTS) hefur ein af hverjum tíu konum í Noregi upplifað alvarlegt ofbeldi af hendi maka. Ákærður fyrir 32 brot og 4 nauðganir Hinn 28 ára Marius Borg Høiby er ákærður fyrir 32 brot, þar af fjórar nauðganir gegn fjórum konum, ofbeldi í nánu sambandi gegn fyrrverandi sambýliskonu sinni, áhrifavaldinum Nora Haukland, og að taka myndskeið af fjölda kvenna án þeirra vitundar eða samþykkis. Réttarhöldin yfir Høiby fara fram í febrúar. Hann gæti átt yfir höfði sér tíu ára fangelsisdóm sé hann fundinn sekur um alvarlegustu brotin. Petar Sekulic, lögmaður prinsins, hefur sagt að Høiby neiti öllum ákærum um kynferðisofbeldi, sem og meirihluta ákæruliða um ofbeldi. Hann bætti við að skjólstæðingur hans myndi „leggja fram ítarlega frásögn af sinni hlið málsins fyrir dómi“. Marius Borg Høiby er sonur Mette-Marit, norsku krónprinsessunnar, og stjúpsonur Hákonar krónprins.