Fyrsta barn ársins 2026 lét ekki bíða lengi eftir sér og kom í heiminn á fæðingardeild Landspítala þegar 24 mínútur voru liðnar af nýja árinu. Þarna var á ferðinni drengur, fyrsta barn foreldranna sem hlakka til að takast á við hlutverkið. Notalegt gamlárskvöld ungra hjóna í Kópavogi tók óvænta stefnu þegar fyrsta barn ársins boðaði komu sína. Þetta er spennandi hlutverk segir nýbakaður faðir. Ung hjón í Kópavogi ætluðu að hafa það náðugt á gamlárskvöld, buðu heim gestum og sáu fram á rólegt kvöld - enda áttu þau ekki von á að væntanlegt barn þeirra kæmi í heiminn næstu daga. En um klukkan sex tók kvöldið óvænta stefnu. „Það var settur dagur 6. janúar en hann vildi koma snemma,“ segir Elena Pshennikova móðir piltsins. „Við vorum með matarboð um kvöldið og því var bara „cancellað“ og beint á Landspítala,“ segir faðirinn Guðmundur Vignir Jack. Þannig að þetta bar brátt að? „Já, svolítið. Það var óvænt.“ „Við þurftum að segja: við þurfum að fara á Landspítalann, það voru samdrættir byrjaðir á 2ja mínútna fresti,“ segir Elena. Bæði íslenskt og rússneskt nafn Litli drengurinn er fyrsta barn þeirra Guðmundar Vignis og Elenu. Við fæðingu vóg hann 3,3 kíló og mældist 52 sentimetra langur og þau segjast lítið hafa velt því fyrir sér að hann hlyti þessa nafnbót: Fyrsta barn ársins. Og svo þarf að gefa drengnum nafn - það hefur ekki verið ákveðið en þau vilja gjarnan að í nafninu sameinist uppruni þeirra. „Við viljum nafn sem er bæði íslenskt og rússneskt,“ segir Elena. Og þau hefðu ekki getað hugsað sér betri byrjun á árinu. „Við erum mjög spennt,“ segir Elena. Og Guðmundur Vignir tekur undir það: „Þetta verður mjög spennandi hlutverk.“