Skip sem Finnar stöðvuðu vegna gruns um að það hefði unnið skemmdir á sæstreng milli Finnlands og Eistlands reyndist vera með farm af stáli um borð sem var á lista Evrópusambandsins yfir efnahagsþvinganir. „Fyrstu upplýsingarnar benda til þess að farmurinn hafi verið stálvörur sem sæta umfangsmiklum refsiaðgerðum sem lagðar hafa verið á Rússland,“ sagði finnska tollgæslan í yfirlýsingu á nýársdag. Tollgæslan tók fram að innflutningur varanna til Evrópusambandsins væri bannaður samkvæmt reglugerðum ESB en til skoðunar væri hvort reglurnar ættu við í þessu tilfelli. Skipið var á leið frá Sankti Pétursborg í Rússlandi til Haífa í Ísrael þegar finnska landamæragæslan stöðvaði það og fór með það í finnska höfn á gamlársdag. Tveir meðlimir í áhöfn skipsins hafa verið handteknir og tveir aðrir settir í farbann. Skipið flaggaði skipsfána Sankti Vinsent og Grenadína en skipverjarnir voru frá Rússlandi, Georgíu, Kasakstan og Aserbaísjan. Margir evrópskir leiðtogar óttast að skemmdir á fjarskiptastrengjum séu liður í fjölþáttahernaði Rússa gegn Evrópu. Kaja Kallas, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði Evrópu vera á varðbergi vegna ógna gagnvart innviðum sínum. „Evrópusambandið heldur áfram að víggirða nauðsynlega innviði sína, meðal annars með því að fjárfesta í nýjum sæstrengjum, auka eftirlit, tryggja aukið viðgerðarhæfi og beita sér gegn skuggaflota Moskvu, sem er einnig notaður sem stökkpallur fyrir fjölþáttaárásir,“ skrifaði Kallas á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter).