Sex eru látnir og fjöldi fólks er slasaður eftir átök mótmælenda og lögreglu í Íran. Fjölmenn mótmæli brutust út í Íran eftir að gengi íranska gjaldmiðilsins ríals féll sögulega gagnvart bandaríkjadal. Mótmælin hófust síðastliðinn sunnudag í Teheran, höfuðborg Írans, þegar verslunareigendur þar fóru í verkfall. Mótmælin breiddust fljótt út um landið. Þrír létust í átökum mótmælenda og lögreglumanna í Azna í vesturhluta Íran í dag að því er fram kemur í frétt íranska fjölmiðilsins Fars. „Um klukkan 18:00 í dag nýtti hópur óeirðaseggja sér mótmælasamkomu í Azna í Lorestan-héraði til að ráðast á lögreglustöð. Þrír létust og 17 aðrir særðust í átökum,“ segir fjölmiðillinn Fars. Fjöldi særðra ekki þekktur Þá hafi tveir látið lífið í átökum í borginni Lordegan í suðvesturhluta landsins. „Sumir mótmælendur hófu að kasta grjóti í stjórnsýslubyggingar borgarinnar, þar á meðal skrifstofu héraðsstjórans, moskuna, Píslarvottastofnunina, ráðhúsið og banka,“ skrifar Fars um átökin í Lordegan í dag. Samkvæmt fjölmiðlinum beitti lögreglan táragasi. Ótilgreindur fjöldi fólks hafi særst. Ríkisfjölmiðill Írans greindi frá því í dag að liðsmaður í öryggissveitum landsins hefði verið drepinn í nótt í mótmælum í borginni Kouhdasht í vesturhluta landsins. „21 árs liðsmaður Basij frá borginni Kouhdasht var drepinn í gærkvöldi af óeirðaseggjum þar sem hann var að verja allsherjarreglu,“ hafði Fars eftir Said Pourali, aðstoðarríkisstjóra Lorestan-héraðs. Hratt fall gjaldmiðilsins Á sunnudag nam einn dalur 1,42 milljónum ríala en verðgildið tveimur dögum seinna var 1,38 milljónir. Virði ríalsins hefur fallið hratt síðustu mánuði og seðlabankastjóri Írans hefur sagt af sér samkvæmt fréttum ríkissjónvarps landsins. Hröð veiking ríals gagnvart bandaríkjadal eykur verulega á verðbólgu í Íran. Hagstofa landsins greinir frá því að ársverðbólga í desember hafi numið 42,2 af hundraði.