Rússar biðja Bandaríkin að hætta að elta olíuflutningaskip

Rússnesk stjórnvöld hafa sent beiðni til Bandaríkjamanna um að hætta eftirför á olíuflutningaskipi á Atlantshafi. Skipið, sem heitir Bella 1, var á leið til Venesúela þegar bandarískir hermenn reyndu að stöðva það á Karíbahafi og sökuðu það um að sigla undir fölsku flaggi. Skipið sneri við og sigldi til baka út á Atlantshaf og hefur verið á flótta í nærri tvær vikur. Bandarísk stjórnvöld hafa heitið því að stöðva öll olíuflutningaskip á leið til og frá Venesúela. Stjórn Donalds Trump vill þannig fjársvelta ríkisstjórn Nicolás Maduro Venesúelaforseta, sem hún sakar um að standa fyrir stórtæku fíkniefnasmygli. Bella 1 hefur verið á efnahagsþvinganalista Bandaríkjanna frá því í fyrra. Skipið flaggaði gvæjönskum skipsfána þegar Bandaríkin reyndu að stöðva það en áhöfn skipsins málaði rússneskan fána á skipið á gamlársdag og tilkynnti bandarísku strandgæslunni að skipið væri undir rússneskri vernd. Skipið birtist síðan undir nýju nafni, Marinera, í opinberri skipaskrá Rússlands, með skráningu í Sotsjí við Svartahaf. David Tannenbaum, fyrrum eftirlitsmaður með efnahagsþvingunum hjá fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna, sagði ekki ljóst hvort tekið yrði tillit til þessarar skyndilegu umskráningar á skipsfánum Bellu 1. Í viðtali við New York Times sagði bandarískur embættismaður að áfram yrði litið á skipið sem ríkisfangslaust þar sem það hefði siglt undir fölsku flaggi þegar strandgæslan varð fyrst vör við það.