Flugferðum um alþjóðaflugvöllinn í Aden í suðurhluta Jemens var aflýst á nýársdag, fáeinum dögum eftir snörp orðaskipti milli Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Aden er undir stjórn Umbreytingaráðs suðursins (STC), hreyfingar aðskilnaðarsinna sem njóta óformlegs stuðnings Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Hreyfingin er formlega í bandalagi við hina alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórn Jemens á móti Hútí-fylkingunni, en bandalagið hefur oft þótt brothætt. Hermenn STC lögðu undir sig mikið landsvæði nálægt landamærum Jemens og Sádi-Arabíu í desember. Sádar brugðust við með því að gera loftárás á hafnarborg undir stjórn ráðsins og kröfðust þess að Sameinuðu arabísku furstadæmin hættu að styðja það. Furstadæmin drógu herafla sinn frá Jemen í kjölfarið. Tvennum sögum fer um nákvæma ástæðu þess að flugumferð um Aden var stöðvuð. Samgönguráðuneyti STC í ríkisstjórn Jemens sakaði Sáda um að hafa sett flugbann á Jemen og krafist þess að öll flug hefðu viðkomu í Sádi-Arabíu til þess að hægt væri að leita í flugvélunum. Ráðuneytið áréttaði síðar að Sádar hefðu aðeins lagt þessar kröfur á flug milli Aden og Sameinuðu arabísku furstadæmanna. Sádar höfnuðu því alfarið að þeir hefðu skipt sér að flugferðum til og frá Aden. Þeir sögðu hina alþjóðlega viðurkenndu ríkisstjórn Jemens hafa tekið ákvörðunina um höftin á flugferðinarr og að Umbreytingaráðið hefði stöðvað öll flug frekar en að fara eftir skipuninni. Þessu hafnaði samgönguráðuneyti STC og sagði ráðherra ekki hafa tekið neina ákvörðun um lokun flugvallarins. Hin alþjóðlega viðurkennda ríkisstjórn Jemens, sem stýrt er af leiðtogaráði undir forsæti Rashad al-Alimi, er afar háð Sádi-Arabíu og andstæðingar hennar líta víða á hana sem leppstjórn Sáda.