Dreymdi tákn og rakst 20 árum seinna á ókunnuga manneskju með það tattúverað á hálsinn

Ásgeir Jón Ásgeirsson er myndlistarmaður og hönnuður. Hann byrjaði að vinna hjá tölvuleikjaframleiðandanum CCP árið 1999 og tók þátt í að þróa útlitið á hinum vinsæla Eve online. Hann lýsir því í þættinum Uppspretta á Rás 1 hvernig hann fær innblástur að list sinni í draumi. „Ég tek alltaf mark á draumum á einhvern hátt, tala um drauma, skoða þá og jafnvel nota þá sem innblástur.“ Þegar Ásgeir var ungur maður í myndlistarskólanum var mikið umrót í lífi hans og á þeim tíma dreymdi hann mjög sterkan draum. Í draumnum sá hann sveppi í rjóðri og á sveppunum var svart tákn. Táknið hafði mikil áhrif á hann og þegar hann vaknaði sá hann táknið enn þá skýrt fyrir sér og ákvað að teikna það í skissubók. Svo mörgum árum síðar þurfti Ásgeir að búa til merki fyrir ákveðið lið eða race eins og það er kallað í Eve Online.  Hann fór að grúska í gömlum skissubókum og rakst þá á þetta áhugaverða tákn sem hafði birst honum í draumi. Hann ákvað að nota táknið fyrir liðið í leiknum. Magnaðasta upplifun sem tengist draumum og list Eftir þetta sprakk Eve Online út og milljónir manna byrjuðu að spila leikinn. Merkið sem Ásgeir hafði dreymt sem ungur maður varð á augabragði mjög þekkt. „Það voru mörg þekkt merki í Eve Online en þetta var svona það allra vinsælasta.“ Merkið var prentað á boli og fólk fór að fá sér þetta sem tattú. „Svo 20 árum seinna er ég staddur í millilandaflugi í Frankfurt og það stendur maður rétt hjá mér og hann er með þetta tattú á hálsinum. Og þá rann upp fyrir mér, vá þetta byrjaði í draumi 20 árum fyrr og allt í einu stend ég í útlöndum og einhver ókunnug manneskja er með þetta tattúverað á hálsinn. Þetta er magnaðast upplifun sem tengist draumum og list hjá mér.“ „Þetta byrjaði í draumi 20 árum fyrr og allt í einu stend ég í útlöndum og einhver ókunnug manneskja er með þetta tattúverað á hálsinn,“ segir Ásgeir Jón sem tók þátt í að þróa útlitið á Eve Online-tölvuleiknum. Í þættinum Uppspretta ræðir Kolbrún Vaka Helgadóttir við fólk sem hefur nýtt sér drauma í listsköpun. Hlusta má á þáttin í spilararnum hér að ofan.