Niðurstöður rannsóknar háskólans í East Anglia í Englandi birtist í vísindatímaritinu Mobile DNA. Þær benda til þess að erfðaefni ísbjarna sé að breytast vegna lofstlagshlýnunar. Vísindamenn rannsökuðu blóðsýni úr ísbjörnum á Norðaustur- og Suðaustur-Grænlandi og báru saman svokallaða stökkla, sem eru litlar erfðamengisraðir sem geta flutt sig á nýja staði í erfðamenginu. Vísindamenn skoðuðu genin í tengslum við hitastig á svæðunum. Töluvert kaldara er á Norðaustur-Grænlandi og ekki eins breytilegt veðurfar og á Suðaustur-Grænlandi, þar sem hitastig er hærra og minni ís. Miklar hitasveiflur geta orðið þar. Vitað er að DNA-raðir í dýrum breytast með tímanum en það getur gerst hraðar vegna álags í umhverfinu, eins og ört hlýnandi loftslags. Alice Godden, aðalhöfundur rannsóknarinnar, sagði í viðtali við ABC fréttastofuna í Bandaríkjunum, að þessi einstaki hópur ísbjarna á Suðaustur-Grænlandi væri í raun að endurskrifa hluta af eigin erfðamengi til að lifa af. Þetta sé örvæntingafull leið þeirra til að bregðast við bráðnun hafíss. Vísindamenn vonast til þess að þessi uppgötvun veiti von um framtíð ísbjarnanna, en því er spáð að árið 2050 verði tveir þriðju allra ísbjarna í heiminum horfnir. Næstu skref vísindamanna verða að rannsaka ísbirni á öðrum búsvæðum en þau eru um tuttugu um allan heim. Ætlunin er að athuga hvort sömu breytingar séu að verða á erfðaefni þeirra.