Enn líklegra að dóttirin verði gerð að arftaka

Enn líklegra en áður þykir að Kim Ju Ae, dóttir Kim Jong-Un, leiðtoga Norður-Kóreu, verði gerð að arftaka föður síns. Ríkismiðlar landsins birtu í morgun myndir af henni og föður hennar í heimsókn í Kumusan-grafhýsið í miðborg Pyongyang, þar sem afi hennar og langafi, fyrrum leiðtogar landsins, hvíla. Njósnastofnanir í Suður-Kóreu segja að líklega sé hún næst í hinni svokölluðu Paektu-erfðaröð, sem stýrt hefur Norður-Kóreu með stálhnefa frá stofnun ríkisins 1948. Ju Ae fylgdi föður sínum í opinbera heimsókn til Kína í fyrra. Cheong Seong-chang, sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu við Sejong-stofnunina í Seúl, segir við AFP að líklega verði Ju Ae formlega útnefnd sem arftaki föður síns bæði innanlands og utan. Cheong, sem skrifað hefur bók um Kim-slektið í Norður-Kóreu, segir að tilgangur heimsóknarinnar í grafhýsið hafi mögulega verið til að kynna „eilífum leiðtogum“ landsins þessa ráðstöfun. Norðurkóreskir miðlar hafa áður vísað til Ju Ae sem ástsæla barnsins og lofað leiðtogahæfileika hennar með kóreska orðinu hyangdo sem jafnan er ekki notað nema um leiðtoga landsins eða arftaka þeirra. Því ráku margir upp stór augu þegar Ju Ae, sem fyrst kom fyrir augu heimsins árið 2022, var sýnd í þessu ljósi. Í gær birtu norðurkóreskir miðlar myndir af valdafjölskyldunni á nýársfögnuði í Pyongyang. Þar sat Jue Ae í öndvegi, á milli föður síns og móður sinnar, sem hélt sig eilítið til hlés. Það rataði í fréttir í Suður-Kóreu að Ju Ae, sem talin er hafa fæðst árið 2012 eða 2013, lagði hönd á andlit föður síns og kyssti hann á vangann. Stjórnmálaskýrendur í Suður-Kóreu segja að mögulega standi til að kjósa Ju Ae í embætti formanns miðstjórnar norðurkóreska kommúnistaflokksins á þingi flokksins á næstu viku. Það myndi gera hana að næstráðanda í þessu lokaðasta ríki heims.